Innlent

Eiga að geta treyst því sem kemur fram í ritgerðum við HA

Hersir Aron Ólafsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Rektor Háskólans á Akureyri segir að hægt eigi að vera að treysta því að það sem komi fram í BS-ritgerðum sem skrifaðar eru við skólann sé rétt en BS-ritgerðir séu þó ekki ritrýndar fræðigreinar og því þurfi að taka þeim með fyrirvara. Farið var með staðlausa stafi um tekjur ríkisins af virðisaukaskatti í nýrri BS-ritgerð nemanda í viðskiptafræði við skólann.

Ranghermt var í ritgerð nemanda sem útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri nýlega að tekjur ríkisins af virðisaukaskatti væru hverfandi, aðeins 39-53 milljarðar króna á ári. Það rétta er þó að ríkið hafði 172 milljarða króna upp úr virðisaukaskatti árið 2014 og 192 milljarða árið 2015.

Nokkur umræða hefur skapast um ritgerðina eftir að fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um niðurstöður hennar um helgina. Ýmsir hafa gagnrýnt Háskólanna á Akureyri fyrir að hafa lagt blessun sína yfir ritgerðina.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að oft séu BS-ritgerðir með einföldum forsendum til þess að þær séu viðráðanlegar. Þar af leiðandi séu þær ekki ritrýndar fræðigreinar. Hann viðurkennir þó að hægt eigi að vera að treysta því sem kemur fram í ritgerðum sem skrifaðar eru við skólann.

„Hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða rangfærslur eða um sé að ræða rangar forsendur þá höfum við tiltekin ferli sem deildin fer í annars vegar og svo skólinn hins vegar ef ástæða þykir til,“ segir Eyjólfur.

Hann vísar ábyrgð á rýni ritgerða á leiðbeinendur. Það sé þeirra að tryggja að nemendur fari eftir þeim aðferðafræðum sem gilda í þeirra greinum.

Helgi Gestsson, lektor við HA, var leiðbeinandi ritgerðarinnar þar sem farið var rangt með tölur um tekjur af virðisaukaskattinum. Hann vildi ekki veita Stöð 2 viðtal vegna hennar í dag. Hann sagði hans vegar við Stundina að hann hefði tekið við sem leiðbeinandi á miðju tímabili þegar vinna við hana var þegar hafin.

Gleymst hafi að sækja upplýsingar um þær upphæðir sem tollstjóri sjái um að innheimta. Best hefði verið ef honum hefði tekist að benda nemandanum á að sækja sér þær upplýsingar.


Tengdar fréttir

„Virðisaukaskatturinn er bókstaflega engu að skila“

Virðisaukaskattur skilar sáralitlum tekjum í ríkissjóð að sögn viðskiptafræðings. Tímabært sé að endurskoða virðisaukaskattskerfið, undanþágur séu of margar og kerfið ógagnsætt. Æskilegra væri að taka upp 1,5 prósent flatan veltuskatt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×