Fótbolti

Bakvarðakapall hjá Atletico│Besti leikmaður Hollands mættur til Madridar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Santiago Arias var valinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur samið við Atletico Madrid.
Santiago Arias var valinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur samið við Atletico Madrid. vísir/getty
Króatíski hægri bakvörðurinn Sime Vrsaljko hefur yfirgefið spænska úrvalsdeildarliðið Atletico Madrid þar sem búið er að lána hann til ítalska úrvalsdeildarliðsins Internazionale. 

Vrsaljko hefur eignað sér fast sæti í byrjunarliði króatíska landsliðsins sem fór alla leið í úrslitaleik á HM í Rússlandi í sumar. Hann hefur leikið með Atletico Madrid undanfarin tvö tímabil og hjálpaði Atletico að innbyrða sigur í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.

Í hans stað hefur verið keyptur besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð; kólumbíski hægri bakvörðurinn Santiago Arias en hann hefur verið í lykilhlutverki hjá PSV Eindhoven undanfarin fimm ár og hjálpað liðinu að vinna hollensku deildina þrívegis.

Evrópudeildarmeistarar Atletico Madrid munu mæta til leiks með töluvert breytt lið á komandi leiktíð en liðið hefur gengið frá kaupum á þeim Thomas Lemar, Gelson Martins auk Arias. Þá eru gömlu mennirnir, Fernando Torres og Gabi, farnir frá liðinu til framandi verkefna í Japan og Katar.


Tengdar fréttir

Griezmann áfram hjá Atletico

Antoine Griezmann, miðjumaður Atletico Madrid, mun ekki yfirgefa Atletico í sumar en þetta tilkynnti hann í kvöld.

Gelson Martins til Atletico Madrid

Portúgalski kantmaðurinn Gelson Martins er genginn til liðs við spænska úrvalsdeildarliðið Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×