Erlent

Ríkisstjóri Ohio þyrmdi lífi fanga

Sylvía Hall skrifar
Meðlimur kviðdómsins biðlaði til Kasich eftir að hann komst að misnotkun sem fanginn varð fyrir.
Meðlimur kviðdómsins biðlaði til Kasich eftir að hann komst að misnotkun sem fanginn varð fyrir. Vísir/Getty
John Kasich, ríkisstjóri Ohio, þyrmdi lífi manns sem dæmdur hafði verið til dauða vegna galla í málsmeðferð mannsins. Ákvörðunin var tekin eftir að meðlimur kviðdómsins komst á snoðir um misnotkun sem maðurinn varð fyrir í æsku.

Maðurinn, Raymond Tibbetts, var dæmdur fyrir morð á eiginkonu sinni og Fred Hicks, 67 ára gömlum manni sem kona hans starfaði fyrir árið 1997. Tibbetts, sem í dag er 61 árs, var upphaflega dæmdur til dauða en hefur nú hlotið lífstíðardóm eftir að ríkisstjórinn ákvað að þyrma lífi mannsins.

Fórnarlömb Tibbetts bjuggu í sama húsi og hann, en eiginkona Tibbetts hafði starfað sem umönnunaraðili fyrir Hicks og hafði hann leyft þeim að búa í húsi sínu. Sama dag og morðin áttu sér stað höfðu hjónin rifist eiturlyfjanotkun Tibbetts.

Það kom síðar í ljós að Tibbetts hafði alist upp á fósturheimili þar sem hann og bræður hans hlutu illa meðferð. Þeir voru beittir ofbeldi, fengu ekki mat svo dögum skipti og oft bundnir við rúm sín. Fyrrverandi meðlimur kviðdómsins sagðist aldrei hafa kosið með dauðarefsingu hefði hann vitað þetta, og heldur kosið að Tibbetts fengi lífstíðardóm.

Ríkisstjórinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir lögfræðinga Tibbetts ekki hafa staðið sig sem skyldi við að verja Tibbetts og það hafi orðið til þess að kviðdómur gat ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvort Tibbetts ætti dauðarefsinguna skilið. Því hafi hann ákveðið að þyrma lífi mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×