Innlent

Horfist í augu við nýjan veruleika: „Get til viðbótar slegið frá mér“

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það nýjan veruleika að kljást við skyndileg og óvænt veikindi. Hann er vongóður um að geta sinnt starfinu af fullum krafti í haust, en treystir á gott samstarfsfólk gangi það ekki eftir.

Frétt Vísis: Var fyrst í hálfgerðri afneitun

Í viðtali við Fréttablaðið í morgun greindi Dagur frá því að hann hefði nýlega greinst með svokallaða fylgigigt. Sjúkdómurinn getur valdið talsvert skertri hreyfigetu og lagst á allar slímhúðir líkamans. Dagur segir það vissulega hafa verið nokkurt áfall að fá tíðindin.

„Fyrir einhvern sem er vanur því að vera manna hraustastur, að taka það inn í sjálfsmyndina að næstu mánuðir og kannski einhver ár þá þurfi maður að vera í sterkri lyfjagjöf og eftirliti og passa sig á allt annan hátt, það er bara nýr veruleiki,“ segir Dagur.

Einkennum haldið niðri með lyfjum

Talið er að orsökin sé sýking sem Dagur fékk í kviðarholið síðasta haust. Lyfin sem hann tekur nú eru m.a. notuð til að meðhöndla ákveðnar tegundir krabbameins og er lyfjagjöfin nokkuð þung. Sjúkdómurinn ræðst á ónæmiskerfið og getur lagst á fjölmörg líffæri, en markmiðið er að halda einkennunum niðri.

„Hann er læknanlegur, það eru nokkuð margir sem losna alveg, en alltaf einhver hópur sem er áfram krónískt með gigtareinkenni,“ segir Dagur.

Þessa stundina er Dagur í fríi í faðmi fjölskyldunnar og kattarins Mumma. Framundan er þó haustið í nýjum borgarstjórnarmeirihluta. Hann er bjartsýnn á að geta sinnt starfinu af krafti, en ætlar þó að láta heilsuna ganga fyrir.

Treystir á gott samstarfsfólk

„Ég er auðvitað með frábært samstarfsfólk, bæði í nýjum meirihluta og í Ráðhúsinu, þannig að ég kvíði því ekki – ég bara hlakka til vetrarins. En þetta er óneitanlega ný staða fyrir hvern sem er og eitthvað sem maður þarf líka að bera virðingu fyrir. Ég þarf líka bara að sjá hvernig þetta þróast og hvernig gengur að ná utan um þetta,“ segir Dagur.

Verkefni síðustu og næstu daga sé hins vegar fyrst og fremst að venjast nýjum takti, nýjum veruleika.

„Nú geng ég við staf, það er auðvitað breyting, en ég held bara ótrauður áfram og get til viðbótar slegið frá mér ef því er að skipta,“ segir Dagur glettinn.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×