Erlent

Réðust á spámann sem reyndi að reisa ættingja þeirra upp frá dauðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjölskyldan ákvað að grafa líkið upp eftir að hafa heyrt söguna af Jesú og Lasarusi.
Fjölskyldan ákvað að grafa líkið upp eftir að hafa heyrt söguna af Jesú og Lasarusi. Vísir/Getty
Lögreglan í Eþíópíu handtók á dögunum karlmann sem reyndi að vekja mann upp frá dauðum. Hinn handtekni heitir Getayawkal Ayele sem hefur stefnt að því að verða spámaður.

Hann hafði reynt að vekja lík manns, sem hét Belay Biftu, til lífs með því að liggja ofan á líkinu og hrópa ítrekað: „Belay, vaknaðu!“

Ayele hafði ekki erindi sem erfiði sem reiddi ættingja Biftu til reiði. Réðust þeir á Ayele sem var bjargað af lögreglu sem hafði verið kölluð til.

Það er glæpur í Eþíópíu að misþyrma líkum og er Ayele, sem starfar að jafnaði sem heilbrigðisstarfsmaður, í gæsluvarðhaldi.

Var atvikið tekið upp á myndband sem hefur ratað á samfélagsmiðla.

Atvikið átti sér stað í smábænum Galilee en íbúar þar segja Ayele hafa sagt sorgmæddum ættingjum Biftu frá sögunni af því þegar Jesú reisti Lasarus upp frá dauðum.

Eftir að hafa heyrt söguna samþykktu ættingjarnir að grafa Belay upp og leyfa Ayele að reyna að reisa hann upp frá dauðum. Þegar það mistókst varð mikið uppnám á meðal ættingjanna. Sumir féllu í yfirlið á meðan aðrir réðust á Ayele.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×