Enski boltinn

Klopp: Geri hvað sem er til að gera Liverpool sigursælt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jurgen Klopp hikar ekki við að rífa upp veskið.
Jurgen Klopp hikar ekki við að rífa upp veskið. vísir/afp
Í kjölfar kaupa Liverpool á Virgil van Dijk og Alisson Becker hafa ummæli Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, frá árinu 2016 verið rifjuð upp.

Klopp lét þá hafa eftir sér að hann myndi aldrei fara álíka leið og önnur lið í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar sem voru að eyða stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn. Voru ummælin látin falla í kjölfar kaupa Manchester United á Paul Pogba á tæplega 90 milljónir punda.

Klopp svaraði fyrir þetta á blaðamannafundi í Bandaríkjunum í nótt og virðist hafa skipt um skoðun; með það að markmiði að gera Liverpool að Englandsmeisturum.

„Ég geri hvað sem er til að gera Liverpool sigursælt. Ég hefði ekki getað ímyndað mér að heimurinn myndi breytast á þennan hátt. Fyrir tveimur árum voru 100 milljónir punda brjálæðislega hátt verð. Síðan þá hefur þessi heimur algjörlega breyst,“ segir Klopp og hélt áfram.

„Mitt starf er fyrst og fremst að gera þetta félag eins sigursælt og mögulegt er. Starf mitt snýst ekki um að koma mínum hugmyndum á framfæri og ég get ekki sagt: Ég ætla ekki að kaupa leikmenn af því ég vil ekki eyða háum fjárhæðum, og í kjölfarið yrði Liverpool ekki sigursælt,“ segir Klopp.

Liverpool gerði Alisson Becker nýverið að dýrasta markverði sögunnar en Virgil van Dijk er einmitt dýrasti varnarmaður sögunnar eftir að hafa komið frá Southampton. Klopp hefur einnig styrkt liðið með þeim Naby Keita, Fabinho og Xherdan Shaqiri í sumar.

„Við höfum mjög gott lið og mjög góðan leikmannahóp. Það þarf að eyða miklum fjármunum til að bæta hópinn. Leikmenn sem bæta hópinn okkar eru ekki á hverju strái," segir Klopp.

Liverpool er í æfingaferð í Bandaríkjunum og mætir fyrrum lærisveinum Klopp í Borussia Dortmund í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20 á íslenskum tíma og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×