Tuttugu og tveggja metra hátt svið risið á Laugardalsvelli

Tuttugu og tveggja metra hátt svið er risið á Laugardalsvelli og það langstærsta sem komið hefur verið upp hér á landi. Hundruð manna hafa unnið að uppsetningu tónleika Guns´N Roses á vellinum frá því á mánudag og verða þeir að störfum alveg fram á þriðjudag þegar hljómsveitin stígur á svið.
Jón Bjarni Steinsson, einn af skipuleggjendum tónleikanna, segir belgíska starfsmenn sjá um að setja upp sviðið en einnig er búið að leggja gólf frá Bretlandi til að vernda grasið á Laugardalsvelli. Hljóðkerfið kemur jafnframt frá Bretlandi.

Spurður hvernig hefur reynst að setja upp svona stóra tónleika á Laugardalsvelli segir Jón Bjarni það vissulega vera mikla vinnu en hún hafi gengið vel.

„Við erum með þaulvant fólk að störfum sem gerir ekkert annað en að vinna við svona viðburði,“ segir Jón Bjarni. Þeir sem hafa komið að skipulagningu tónleikanna á Laugardalsvelli hafa rekið sig á allskyns praktísk atriði sem hefur þó gengið smurt fyrir að leysa úr.

Hann segir rafmagnið á Laugardalsvelli enga fyrirstöðu þegar kemur að svo stóru tónleikahaldi, enda treysti þeir sem standa að þessum tónleikum á eigin rafstöðvar.

22 þúsund miðar hafa verið seldir á tónleikana sem fara fram næstkomandi þriðjudagskvöld en þegar Axl Rose og félagar stíga á svið verða starfsmenn búnir að setja upp búnað á vellinum sem vegur um 1.300 tonn.
Tengdar fréttir

Baksviðskröfur Guns N' Roses á Laugardalsvelli endurspegla nýjan lífsstíl
Undirbúningur fyrir risastónleika rokkhljómsveitarinnar Guns N' Roses er nú í fullum gangi í Laugardalnum. 22 þúsund miðar hafa verið seldir á tónleikana að sögn upplýsingafulltrúa.

Brain Police hita upp fyrir GNR og 2000 miðum bætt við
Skipuleggjendur tónleika bandarísku rokksveitarinnar Guns n Roses hafa bætt við 2000 miðum aukalega í sölu og tilkynnt að íslenska sveitin Brain Police hiti upp fyrir tónleikana.