Innlent

Tuttugu og tveggja metra hátt svið risið á Laugardalsvelli

Birgir Olgeirsson skrifar
Sviðið á Laugardalsvelli er ansi stórt.
Sviðið á Laugardalsvelli er ansi stórt. Vísir/Birgir
Tuttugu og tveggja metra hátt svið er risið á Laugardalsvelli og það langstærsta sem komið hefur verið upp hér á landi. Hundruð manna hafa unnið að uppsetningu tónleika Guns´N Roses á vellinum frá því á mánudag og verða þeir að störfum alveg fram á þriðjudag þegar hljómsveitin stígur á svið.

Jón Bjarni Steinsson, einn af skipuleggjendum tónleikanna, segir belgíska starfsmenn sjá um að setja upp sviðið en einnig er búið að leggja gólf frá Bretlandi til að vernda grasið á Laugardalsvelli. Hljóðkerfið kemur jafnframt frá Bretlandi.

Búið er að leggja gólf til að vernda grasið á Laugardalsvelli.Vísir/Birgir
Spurður hvernig hefur reynst að setja upp svona stóra tónleika á Laugardalsvelli segir Jón Bjarni það vissulega vera mikla vinnu en hún hafi gengið vel.

Búnaðurinn og tæki sem fylgja þessum tónleikum eru um 1.300 tonn að þyngd.Vísir/Birgir
„Við erum með þaulvant fólk að störfum sem gerir ekkert annað en að vinna við svona viðburði,“ segir Jón Bjarni. Þeir sem hafa komið að skipulagningu tónleikanna á Laugardalsvelli hafa rekið sig á allskyns praktísk atriði sem hefur þó gengið smurt fyrir að leysa úr.

22 þúsund miðar hafa verið seldir á tónleikanna sem fara fram næstkomandi þriðjudagskvöld.Vísir/Birgir
Hann segir rafmagnið á Laugardalsvelli enga fyrirstöðu þegar kemur að svo stóru tónleikahaldi, enda treysti þeir sem standa að þessum tónleikum á eigin rafstöðvar.

Sviðið er ansi magnað að sjá.Vísir/Birgir
22 þúsund miðar hafa verið seldir á tónleikana sem fara fram næstkomandi þriðjudagskvöld en þegar Axl Rose og félagar stíga á svið verða starfsmenn búnir að setja upp búnað á vellinum sem vegur um 1.300 tonn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×