Innlent

Lögreglan mun loka Hótel Adam á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Hótel Adam er staðsett við hlið Krambúðarinnar á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur.
Hótel Adam er staðsett við hlið Krambúðarinnar á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur. visir/Anton brink
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun loka Hótel Adam á Skólavörðustíg á mánudag að kröfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumenn afhentu forsvarsmönnum Hótel Adam bréf þess efnis síðastliðinn föstudag þar sem þeim var tilkynnt að þeir hefðu 48 klukkustundir til að undirbúa lokunina.

Var tveggja sólarhringar frestur gefinn svo það myndi ekki bitna á ferðamönnum sem áttu bókaða gistingu á hótelinu og hægt væri að gera ráðstafanir þess efnis, að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu.

Stundin hefur fjallað ítarlega um málefni Hótel Adam undanfarnar vikur. Blaðamaður Stundarinnar var með í för þegar eftirlitsfulltrúar frá VR og Eflingu fóru í heimsókn á hótelið síðastliðinn þriðjudag.

Samkvæmt frétt Stundarinnar reyndist rekstrarleyfi hótelsins hafa runnið út fyrir rúmum þremur árum og var því haldið fram að verið væri að leigja út mun fleiri herbergi en leyfi var fyrir.

Greint var frá því í maí síðastliðnum að Íslandsbanki hefði farið fram á að húsið á Skólavörðustíg 42 í Reykjavík yrði sett á nauðungarsölu, en húsið er í eigu Ragnars Guðmundssonar sem rekur Hótel Adam.

Viðskiptablaðið vakti athygli á sölunni í maí síðastliðnum og vísaði í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar kom fram að kröfur Íslandsbanka hljóði upp á tæplega 25 milljónir króna. Átti að taka beiðnin fyrir á skrifstofu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Hlíðasmára í Kópavogi 14. júní síðastliðinn ef ekki var búið greiða kröfurnar fyrir þann tíma.

Hótel Adam komst í sviðsljósið fyrir rúmum tveimur árum þegar gestir vöktu athygli á því að varað væri við því að drekka vatn úr krana en hægt væri að kaupa vatnsflöskur merktar hótelinu á 400 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×