Innlent

Nýr vígslubiskup er United maður og Valsari

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kristján Björnsson var vígður sem nýr vígslubiskup í Skálholtsdómkirkju í dag að viðstöddu fjölmenni. Um sjötíu prestar og biskupar af Norðurlöndunum tóku þátt í athöfninni.

Það viðraði vel í Skálholti þegar prestarnir og biskuparnir gengu til hátíðarmessu og biskupsvígslu í Skálholtsdómkirkju. Fjölmenni mætti til hátíðarinnar. Það kom í hlut Biskups Ísland, frú Agnesar M. Sigurðardóttur að vígja séra Kristján Björnsson til vígslubiskups.

„Ég hlakka til að takast á við ný verkefni, nýja ábyrgð og fá að styðja fólk í þjónustunni, það er bara markmiðið“, segir Kristján aðspurður hvernig nýja starfið leggist í hann.

En hvert er hlutverk vígslubiskups? „Það er dáltíð hér í Skálholti mikið starf á staðnum sjálfum og svo er verið að sinna og styðja starfið í sóknunum sem eru 174 til 175, það er á Suður og Vesturlandi og Vestfjörðum, auk Suðvesturshornsins líka, þannig að það er heilmikið að gera í því“.

Kristján þjónaði síðast í Eyrarbakkaprestakalli og þar áður var hann prestur í Vestmannaeyjum. En hvar er nýi víslubiskupinn í boltanum þegar knattspyrna er annars vegar?

„Það er bara United og svo er ég í Val náttúrulega“, segir Kristján hlægjandi, sem átti ekki von á þessari spurningu.

Það var létt yfir prestunum og biskupunum í lok athafnarinnar enda brustu þeir í söng á kirkjutröppunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×