Fótbolti

Höness hraunar yfir Özil: Hefur ekkert getað í nokkur ár

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ekki munu allir sakna Özil
Ekki munu allir sakna Özil vísir/getty
Mesut Özil kveðst vera hættur að spila fyrir þýska landsliðið en hann greindi ítarlega frá ástæðum þess á Twitter síðu sinni í gær.

Özil er afar umdeildur í þýska fótboltasamfélaginu og einn þeira sem er greinilega ekki stuðningsmaður kappans er Uli Höness, heimsmeistari með Vestur-Þýskalandi 1974 og nú forseti Bayern Munchen.

Hann dregur ekkert undan og hreinlega hraunar yfir Özil í samtali við blaðamann þýska dagblaðsins Bild.

„Ég er ánægður að þessum skrípaleik sé lokið. Hann hefur ekkert getað í nokkur ár. Hann vann síðast tæklingu fyrir HM 2014. Nú er hans tíma með hans ömurlegu frammistöðum loksins lokið“ segir Höness.

Höness þekkir hvern krók og kima hjá Bayern Munchen, hafandi gegnt ýmsum störfum hjá þýska stórveldinu síðan hann hætti að leika með því árið 1979.

„Alltaf þegar Bayern hefur mætt Arsenal höfum við nýtt okkur hans veikleika því við vitum að hann er þeirra veikasti hlekkur. Hann á ekki neitt erindi í þýska landsliðið,“ segir Höness, ákveðinn.

Frammistaða Özil með þýska landsliðinu hefur löngum þótt umdeild en hann á sér marga grjótharða stuðningsmenn. Höness virðist þó ekki sannfærður um að þeir séu til í raun og veru.

„Hans 35 milljón fylgjendur, sem eru ekki til í alvöru, eru sannfærðir um að hann hafi spilað frábærlega þegar hann skilar einni fyrirgjöf frá sér.“ segir Höness.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×