Enski boltinn

Mourinho segir United ekki vera lið eftir dapurt jafntefli í Bandaríkjunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho var ekki kátur í gærkvöldi.
José Mourinho var ekki kátur í gærkvöldi. vísir/getty
Manchester United gerði markalaust jafntefli við MLS-liðið San Jose Earthquakes í æfingaleik á Levis-vellinum í San Francisco í nótt en liðið spilaði ekki vel og var heppið að tapa ekki.

United hefur ekki farið vel af stað í Bandaríkjunum en það gerði 1-1 jafntefli við mexíkóska liðið Club America í fyrsta leik liðsins og nú tókst því ekki að skora á 90 mínútum í æfingaleik á móti MLS-liði.

Enska liðið var í raun heppið að tapa ekki leiknum því Timothy Fosu-Mensah bjargaði meistaralega á línu í seinni hálfleik þegar að Bandaríkjamennirnir komust í dauðafæri.

Lee Grant, markvörðurinn sem United fékk á dögunum, hefur verið einn besti maður liðsins og hann varði líka vel skot fyrir utan teig sem stefndi í skeytin.



José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var ekki kátur með frammistöðuna og líkti leiknum bara við enn eina æfinguna.

„Þetta var bara önnur æfing. Við erum ekki lið. Við erum hópur leikmanna frá mismunandi liðum. Sumir eru aðalliðsmenn, sumir spila með U23 ára liðinu, aðrir eru að koma úr láni og á leiðinni á lán aftur og enn aðrir eru að spila með U18 ára liðinu,“ sagði hann við MUTV eftir leikinn.

„Við erum ekki með lið til að spila mikið betur en við gerðum í dag. Þetta var bara önnur æfing.“



Alexis Sánchez átti góðan leik en hann var að spila sínar fyrstu mínútur með liðinu í sumar eftir að hann kom seint til leiks.

„Alexis var góður. Hann hefur verið að aukalega og þurfti á þessu að halda. Hann setti mikinn kraft í leikinn sem er mikilvægt fyrir hann á þessari stundu,“ sagði Mourinho sem var líka ágætlega sáttur við frammistöðu hins unga Andreas Pereira.

„Hann er að spila ágætlega. Hann stóð sig sæmilega í fyrsta leiknum og betur í dag en hann þarf að spila einfaldar en hann er að gera. Hann hefur samt hæfileika og vill fá boltann þannig að ég er ánægður með hann,“ sagði José Mourinho.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×