Tónlist

Fyrsta demó David Bowie fannst óvænt í brauðkörfu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
David Bowie var einn þekktasti tónlistarmaður heims um áratugaskeið.
David Bowie var einn þekktasti tónlistarmaður heims um áratugaskeið. vísir/getty
Fyrsta demó sem vitað er til að breski tónlistarmaðurinn David Bowie tók upp fannst nýverið í brauðkörfu þegar David Hadfield, trommari og framkvæmdastjóri The Konrads, fyrstu hljómsveitarinnar sem Bowie var í, var að flytja.

Talið er að upptakan muni seljast fyrir um 10 þúsund pund á uppboði, eða sem samsvarar um 1,4 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Lagið á upptökunni heitir I Never Dreamed og er með The Konrads. Bowie var sextán ára og spilaði á saxófón en samþykkti að syngja lagið fyrir upptökuna sem gerð var í litlu hljóðveri í suðurhluta London.

Upptakan var send útgáfufyrirtækinu Decca en The Konrads höfðu ekki erindi sem erfiði og komust aldrei á samning hjá fyrirtækinu.

Hadfield fann upptökuna óvænt þegar hann var að flytja. Upptakan var í gamalli brauðkörfu sem afi hans hafði átt en í körfunni, sem fannst uppi á lofti fyrir ofan bílskúr Hadfield, var ýmislegt annað eins og til dæmis myndir, bréf og reikningar.

Ekki löngu eftir að The Konrads tóku lagið upp hætti Bowie í hljómsveitinni vegna listræns ágreinings.

Nokkrum árum síðar var hann orðinn einn þekktasti tónlistarmaður heims en Bowie lést í janúar 2016, 69 ára að aldri. Banamein hans var lifrarkrabbamein. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×