Erlent

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Gervinhnattarmynd af Sohae-herstöðinni.
Gervinhnattarmynd af Sohae-herstöðinni. Vísir/Getty
Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar. Einræðisríkið virðist þar með vera að fylgja samkomulagi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sem samþykkt var í Singapúr í síðasta mánuði. Donald Trump sagði þá að Kim hefði heitið því að losa sig við eldflaugatilraunabúnað án þess að taka fram hvar.



Nýjar gervihnattarmyndir af Sohae í Norður-Kóreu gefa í skyn að verið sé að rífa mannvirki þar. Yfirvöld Norður-Kóreu segja gervihnöttum hafa verið skotið á loft þaðan en erlendir sérfræðingar segja Sohae vera skotstað fyrir eldflaugar.

Greinendur 38 North, sem fylgjast grannt með málum í Norður-Kóreu, segja áðurnefndar myndir, frá 20. júní, segja mikilvæg mannvirki sem snúa að eldflaugaskotum og að þróun eldflauga hafa verið rifin. Það gefi til kynna að trú ríkisstjórnar Norður-Kóreu á eldflaugar sínar hafi aukist til muna.



Eftir fund Trump og Kim hélt bandaríski forsetinn því fram að Norður-Kórea hefði samþykkt að láta öll kjarnorkuvopn sín af hendi og hleypa eftirlitsaðilum inn í ríkið. Samkomulag leiðtoganna hefur þó verið gagnrýnt fyrir að vera verulega óljóst. Síðan þá hefur ríkisstjórn Norður-Kóreu dregið lappirnar verulega og jafnvel sagt Bandaríkin haga sér eins og „ribbaldar“ fyrir að fara fram á afvopnun landsins.

Fregnir hafa borist af því að leyniþjónustur Bandaríkjanna telji Norður-Kóreu halda þróun kjarnorkuvopna áfram í leyni. Endurbætur hafi verið gerðar á mikilvægri rannsóknarstöð þar sem Úran er auðgað og slíkum stöðum hafi verið fjölgað.

Þá sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á föstudaginn að yfirvöld Norður-Kóreu virtust reyna að komast fram hjá viðskiptaþvingunum og að nauðsynlegt væri að fylgja þeim eftir. Ekki mætti draga úr þrýstingi á einræðisríkið, fyrr en þeir hefðu látið öll sín kjarnorkuvopn af hendi og hleypt eftirlitsaðilum inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×