Innlent

Íbúar mála heilu línuna sjálfir gangi Vegagerðin ekki í verkið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fulltrúar bæjaryfirvalda og Vegagerðarinnar voru viðstaddir fundinn við Suðurá í Mosfellsdal í dag.
Fulltrúar bæjaryfirvalda og Vegagerðarinnar voru viðstaddir fundinn við Suðurá í Mosfellsdal í dag. Vísir/Einar Árnason
Íbúar í Mosfellsdal segjast „tilbúnir með málningarrúlluna“ til að mála heila línu á hættulegan vegkafla á Þingvallavegi, gangi Vegagerðin ekki í málið eins fljótt og auðið er. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Víghóls, samtaka íbúa í Mosfellsdal, í kjölfar íbúafundar sem haldinn var í kvöld.

Fundurinn var haldinn að beiðni íbúa í dalnum sem ítrekað hafa biðlað til yfirvalda um bætt umferðaröryggi á Þingvallavegi. Hefur mikið verið fjallað um málið síðustu daga vegna banaslyss sem varð á veginum á laugardag vegna framúraksturs. Í gær var svo greint frá því að Vegagerðin hygðist banna framúrakstur á vegkaflanum.

Sjá einnig: Nýtt framúrakstursbann Vegagerðarinnar á Þingvallavegi „fagnaðarefni“

Sú var einmitt fyrsta krafa íbúa í Mosfellsdal sem lögð var fram á fundinum. Krafan lýtur að því að málaðar verði heilar línur á veginn og framúrakstur þannig bannaður. Í ályktun kemur fram að Vegagerðin hafi samþykkt að framkvæma það eins fljótt og auðið er.

„Ef það bregst eru íbúar tilbúnir með málningarrúlluna og munu ganga í verkið sjálfir,“ segir enn fremur í ályktun.

Nokkuð fjölmennt var á fundinum í dag enda brennur málið á íbúum Mosfellsdals.Vísir/Einar ÁRNASON
Þá verða kantlínur sem banna stöðvun bifreiða í vegbrún málaðar fyrir haustið og Vegagerðin hefur einnig samþykkt að hefja undirbúningsvinnu um uppsetningu þéttbýlishliða beggja vegna Mosfellsdals.

Einnig voru settar fram kröfur um að hraðamyndavélar yrðu settar strax upp og tók bæjarstjóri Mosfellsbæjar vel í það, að því er fram kemur í ályktun, en þær þyrftu þá að vera settar upp í samstarfi við lögreglu, Vegagerðina og umferðaröryggisráð.

Þá var rætt að setja upp stöðvunarskyldu við alla afleggjara á Þingvallavegi auk þess sem háværar raddir lögðu til að hámarkshraði yrði lækkaður niður í 50 km/klst. Að auki liggur fyrir krafa íbúasamtakanna um nýjan veg til Þingvalla sem lagður yrði frá Nesjavallavegi að Kjósarskarði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×