Viðskipti erlent

Þrívíddarprentuð heimili

Oddur Freyr Þorsteinsson skrifar
Svona lítur lokaafurðin frá Icon og New Story út. Lítið en glæsilegt hús sem margir gætu hugsað sér að búa í.
Svona lítur lokaafurðin frá Icon og New Story út. Lítið en glæsilegt hús sem margir gætu hugsað sér að búa í. Icon/New Story
Þrívíddarprentun hefur mjög fjölbreytta notkunarmöguleika og verður áreiðanlega sífellt meira áberandi á næstu árum. Ein leið til að nýta þessa tækni er við að byggja hús. Undanfarin ár hafa tilraunir með þessa byggingaraðferð skilað svo góðum árangri að nú á að fara að nýta hana í auknum mæli. Frumkvöðlar í Hollandi ætla að þrívíddarprenta heimili til að mæta skortinum á múrurum þar í landi og lækka húsnæðiskostnað og bandarískir frumkvöðlar ætla að framleiða 100 þrívíddarprentuð hús sem eiga að nýtast fátæku fólki í El Salvador.

Þrívíddarprentuð einbýlishús

Í hollensku borginni Eindhoven er verið að prenta fimm einbýlishús sem verða tilbúin um mitt næsta ár. Byggingarfyrirtækið Van Wijnen, sem vinnur að verkefninu í samstarfi við tækniháskóla borgarinnar, segir að þetta sé lausn við skortinum á faglærðum múrurum í Hollandi. Þessi aðferð minnkar líka kostnað og umhverfisáhrif, því það þarf minni steypu í þrívíddarprentuð hús en venjuleg. Síðast en ekki síst er skortur á húsnæði í mörgum fjölmennum borgum og þessi ódýra byggingartækni gæti bætt úr því.

Þrívíddarprentarinn sem er verið að nota er í raun risastór vélmennisarmur með stút sem sprautar út sérblönduðu sementi. Sementið er notað til að prenta hönnun arkitektsins, lag fyrir lag. Enn sem komið er þarf að byggja grunna fyrir húsin á hefðbundinn hátt og til að byrja með verða bara veggir nýju heimilanna prentaðir, en þegar öll húsin fimm eru tilbúin er stefnt á að prenta pípulagnirnar og annan nauðsynlegan búnað.

Þessi mynd sýnir hvernig prentari Icon og New Story virkar, en hann er á teinum og prentar húsin lag fyrir lagIcon/New STory
Þessi byggingaraðferð opnar möguleikann á því að setja þráðlausa skynjara beint inn í veggina sem stjórna hlutum eins og lýsingu, kyndingu og öryggiskerfi og skapa þannig „snjallheimili“. Annar kostur við þrívíddarprentuð hús er að það er hægt að prenta þau út í alls kyns mismunandi formum og litum. Þetta gæti gert fólki kleift að sérsmíða hús eftir smekk eða hentugleika og jafnvel þýtt að það verði auðveldara að gera hús sem endurspegla á einhvern hátt það sem þau eru notuð í.

Þetta er ekki fyrsta byggingarverkefni tækniháskólans í Eindhoven. Skólinn sá líka um að byggja þrívíddarprentaða hjólabrú sem var opnuð í bænum Gemert á síðasta ári. Hollensku frumkvöðlarnir spá því að þrívíddarprentun verði komin í almenna notkun í byggingarstarfsemi innan fimm ára.

Getur tryggt mörgum húsaskjól

Meira en milljarður manna fer að sofa á hverju kvöldi án þess að hafa almennilegt húsaskjól. Þessu vilja bandarískir frumkvöðlar breyta með metnaðarfullu verkefni sem nýtir þrívíddarprentuð hús. Verkefnið er samstarfsverkefni milli byggingafyrirtækisins Icon og góðgerðarsamtakanna New Story, sem sér fólki í fátækum löndum fyrir húsaskjóli.

Þessum hópi hefur tekist að þróa leið til að þrívíddarprenta 35 fermetra hús á 48 klukkustundum, en steypan í húsið kostar um milljón krónur. Markmiðið er að ná að byggja 60 fermetra hús á 12 til 24 klukkustundum og að ná kostnaðinum niður með magninnkaupum á steypu og endurbótum á þrívíddarprentaranum.

Svona eiga þrívíddarprentuðu húsin í Eindhoven að líta út þegar þau eru tilbúinProject Milestone
Hæð og breidd húsanna takmarkast af stórum málmramma sem starfar sjálfvirkt og vinnur eftir tölvuteikningum. Ramminn er á teinum, þannig að það er annaðhvort hægt að byggja mörg hús hlið við hlið eða eitt mjög langt.

Eftir prentunina þarf að smíða þak, setja gler í glugga og sinna ýmsum öðrum frágangi, eins og að leggja rafmagn og pípulagnir og koma húsgögnum fyrir. Útkoman er svo heimili sem getur bæði þolað vont veður, slit og álag. Seinna á þessu ári fer þetta verkefni til El Salvador til að byggja nokkur prufuhús, en hugmyndin er að búa til 100 húsa samfélag á næsta ári. 

Verkefnið er fjármagnað með peningagjöfum frá stuðningsmönnum þess í Kísildal og húsin verða seld á lágu verði með mjög sanngjörnum lánum. Peningarnir sem koma frá afborgun lánanna verða svo nýttir til að halda verkefninu áfram.

Forsvarsmenn verkefnisins vonast til að svona hús geti hjálpað fátæku fólki um allan heim til að eignast heimili, því þetta er ódýrt, einfalt og fljótlegt í framleiðslu miðað við hefðbundin hús og veitir gott skjól. Þeir segja að það væri einfaldlega óábyrgt af þeim að reyna ekki að nýta þessa tækni til að breyta því hvernig fólk fer að því að finna sér húsaskjól.Svona lítur lokaafurðin frá Icon og New Story út. Lítið en glæsilegt hús sem margir gætu hugsað sér að búa í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×