Erlent

Kosið í Pakistan í skugga ofbeldis

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pakistanar kusu til þings í dag í skugga hryðjuverkaárása en ein sprengja í borginni Quetta banaði 31 á meðan minni árásir hafa átt sér stað á kjörstöðum víða um land. Íslamska ríkið er sagt bera ábyrgð á árásunum en hryðjuverkahópar hafa plagað Pakistan um árbil.

Kosið er á 272 manna þjóðþing Pakistan en tveir flokkar hafa barist um toppsætið í kosningabaráttunni, Bandalag Múslima og Réttlætishreyfingin.

Fyrir bandalagi Múslima fer Shebaz Sharif sem hefur þjónað sem ríkisstjóri Punjab héraðs frá árinu 1997. Hann er bróðir Nawaz Sharif sem hrökklaðist frá völdum í fyrra, var bannað að bjóða sig fram aftur og hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi vegna hneykslis sem ljóstrað var upp um í Panamaskjölunum.

Fyrir Réttlætishreyfingunni fer fyrrverandi krikketstjarnan Imran Khan. Herinn er sagður standa að baki framboði hans. Herinn hefur meira og minna farið með völdin í Pakistan í áratugi, varla líður kjörtímabil án þess að herinn skipti sér af stjórn landsins. Khan hefur þá lofað að ráðast gegn spillingu í Pakistan sem hefur verið eitt af aðalmálum baráttunnar. Barátta gegn hryðjuverkum og samskipti við Bandaríkin hafa þá verið ofarlega á baugi.

Þrátt fyrir að Bandalag Múslima og Réttlætishreyfingin berjist um toppsætið gæti Þjóðarflokkurinn orðið oddaflokkur á þinginu og í því tilfelli þyrfti að mynda samsteypustjórn sem Khan hefur þó lagst gegn. Afstaða Khan gæti flækt hlutina nokkuð eftir kosningar.

Bilawal Bhutto Zardari, fer fyrir Þjóðarflokknum en hann er einkasonur Benhazir Bhutto fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan sem var myrt árið 2007.

Úrslit kosninganna ættu að vera ljós á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×