Erlent

Stormasamri kosningabaráttu nú lokið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Shehbaz Sharif, trúlega fráfarandi forsætisráðherra, hafnar niðurstöðunum og segir svindl hafa átt sér stað.
Shehbaz Sharif, trúlega fráfarandi forsætisráðherra, hafnar niðurstöðunum og segir svindl hafa átt sér stað. Vísir/AFP
Pakistanar kusu nýtt þing í gær. Samkvæmt þeim tölum sem höfðu borist þegar Fréttablaðið fór í prentun fengu jafnaðarmennirnir í Pakistönsku réttlætishreyfingunni (PTI) 109 þingsæti af 342 alls. Íhaldsflokkurinn Múslimabandalag Pakistans (PML-N) fékk 67 sæti. Sósíalistarnir í Pakistanska lýðflokknum (PPP) fylgdu þar á eftir með 38 sæti.

Kosningarnar eru sögulegar fyrir þær sakir að þetta markar annað skiptið í sögu Pakistans þar sem ein lýðræðislega kjörin ríkisstjórn afhendir annarri stjórnartaumana eftir að hafa setið heilt kjörtímabil.

Því hafði verið spáð fyrir kosningarnar að mjótt yrði á munum á milli PML-N og PTI. PML-N hefur verið í stormasamri ríkisstjórn á yfirstandandi kjörtímabili. Fyrst undir forsæti Nawaz Sharif, áður en hann var dæmdur í tíu ára fangelsi í Panamaskjalamáli, og svo bróður hans, Shehbaz Sharif. Síðarnefndi bróðirinn leiðir nú flokkinn.

PTI hefur sótt í sig veðrið í kosningabaráttunni og leiðtoginn og fyrrverandi fyrirliði karlalandsliðs Pakistana í krikket, Imran Khan, nýtur vinsælda. Vinsældirnar hafa þó verið tortryggðar. Pakistanski herinn og leyniþjónustan ISI eru sökuð um að vinna gegn PML-N til að hagræða kosningunum, PTI í hag.

PPP, sem hefur oft áður verið stærsti eða næststærsti flokkur pakistanskra stjórnmála, meðal annars undir stjórn Benazir Bhutto, hefur varla komist með tærnar þar sem hinir tveir flokkarnir hafa hælana í kosningabaráttunni og endurspegla úrslit kosninganna það. Leiðtogi flokksins, Bulawal Bhutto Zardari, er sonur Benazir.

Segja brögð í tafli

Fawad Chaudhry, upplýsingafulltrúi PTI, fagnaði þeim niðurstöðnum sem komnar voru í gærkvöldi og lýsti því yfir að Imran Khan yrði nýr forsætisráðherra landsins. Ljóst er að PTI-liðar geta fagnað niðurstöðum kosninganna miðað við það sem fram var komið í gærkvöldi. Líklegast þykir að PTI myndi ríkisstjórn með óháðum auk þriggja smáflokka.

Aðrir tóku niðurstöðunum hins vegar ekki svo vel. Forsprakkar PPP og PML-N, sem og smærri flokka, draga úrslit kosninganna í efa.

Sharif hélt blaðamannafund þar sem hann sagði flokk sinn hafna niðurstöðunum og talaði um „augljós svik“. Í yfirlýsingu frá honum á Twitter sagði:

Pakistanar fylgdust spenntir með kosningasjónvarpinu.Vísir/Getty
„Múslimabandalag Pakistans hafnar alfarið niðurstöðum þingkosninganna 2018 vegna gríðarlegra galla á framkvæmd þeirra. Eftirlitsaðilar okkar fengu ekki eyðublað 45, komið var í veg fyrir að atkvæði væru talin og atkvæði voru að auki talin þegar eftirlitsaðilar okkar voru fjarverandi. Þetta er óþolandi og óásættanlegt.“

Sharif sagði jafnframt að hann hefði á ferli sínum í stjórnmálum aldrei séð jafnhryllilegt ástand. „Það sem gerðist hér í dag færir Pakistan þrjátíu ár aftur í tímann. Ég hef ekki áður á ferli mínum séð sviksemi sem þessa eftir lokun kjörstaða,“ sagði þessi formaður PML-N.

Eyðublaðið sem um ræðir er samkvæmt kosningalögum afhent fulltrúum flokka þegar talningu er lokið og á þeim eiga að koma fram niðurstöður talningar.

Líkt og Sharif var Zardari óánægður með daginn. „Nú er komið fram yfir miðnætti og ég hef ekki enn fengið niðurstöður úr neinum kjördæmum. Frambjóðendur mínir hafa kvartað yfir því að fulltrúum okkar hafi verið hent út af kjörstöðum að ástæðulausu. Þetta er óafsakanlegt hneyksli,“ sagði PPP-formaðurinn.

Herinn valdamikill

Stjórn yfir Pakistan hefur til skiptis verið í höndum almennings og pakistanska hersins allt frá því ríkið fékk sjálfstæði árið 1947.

Forsætisráðherrar stýrðu ríkinu fram til ársins 1958 þegar fyrsta valdarán hersins átti sér stað. Herinn stýrði ríkinu til 1971 þegar lýðræðið náði yfirhöndinni á ný. Sex árum síðar framdi hershöfðinginn Zia ul-Haq valdarán og ríkti til 1988. Í kjölfarið fylgdi ellefu ára valdatíð meðal annars Benazir Bhutto og Nawaz Sharif. Pervez Musharraf hershöfðingi sölsaði svo undir sig ríkið árið1999 og ríkti til 2008 og var það síðasta valdarán hersins.

Nú er herinn, líkt og áður segir, sakaður um óeðlileg afskipti af kosningunum. Khan, sem hefur heitið því að vinna gegn spillingu, er sakaður um að hagnast á þessum afskiptum.



Óásættanleg afskipti

Mannréttindaráð Pakistans (HRCP), óháð félagasamtök, birtu í síðustu viku harðorða fréttatilkynningu um meint afskipti hersins. „HRCP hefur alvarlegar áhyggjur af augljósum og skammarlegum tilraunum til þess að hagræða úrslitum komandi kosninga. Þótt það sé mikilvægt að kosningunum verði ekki frestað má efast um lögmæti þeirra,“ sagði í tilkynningunni.

Gagnrýnt var sérstaklega að herinn hefði svo mikil völd þegar kemur að framkvæmd kosninganna. „Það að 350.000 hermenn verði staðsettir fyrir utan kjörstaði, og að yfirmenn hersins hafi fengið yfirráð yfir kjörstöðum, hefur gert það að verkum að óljóst er hvort herinn eða almennir borgarar stjórni framkvæmd kosninganna. Þessar aðgerðir eru fordæmalausar og hættulegar,“ sagði enn fremur.

PLM-N-liðar hafa stutt við bakið á Nawaz Sharif þrátt fyrir Panama­skjalahneykslið. Þeir, sem og einstaklingar úr dómarastéttinni, hafa sagt að tíu ára fangelsisdómurinn yfir forsætisráðherranum fyrrverandi sé til skammar. Ákvörðunin hafi verið tekin til að rýra traust á flokknum í aðdraganda kosninganna og að hún hafi í raun komið frá leyniþjónustunni ISI, sem vilji koma PLM-N frá völdum.

Nawaz Sharif hafði verið í útlegð þar til 14. júlí. Þá kom hann heim og var sendur rakleiðis í fangelsi. Í viðtali við BBC um málið á mánudag sagði Maryam Nawaz, dóttir Nawaz Sharif, herinn hafa staðið á bak við aðförina að föður sínum. „Þegar forsætisráðherrann neitar að hlýða hernum ákveður herinn að gera eitthvað af eftirfarandi: Fá trúarsamfélagið til að rísa upp gegn honum, kalla hann landráðamann, kalla hann handbendi Indverja eða kalla hann spilltan. Herinn gerir þetta við alla kjörna forsætisráðherra.“

Nokkrir frambjóðenda PML-N hafa sömuleiðis haldið því fram að reynt hafi verið að þvinga þá til að ganga til liðs við PTI. Herinn hefur hafnað öllum ásökunum um óeðlileg afskipti.

Sigurreifir söfnuðust saman á götum úti og fögnuðu sínu fólki.Vísir/Getty

Ráðist gegn fjölmiðlum

HRCP hefur einnig fjallað um fjölmiðlun í landinu í aðdraganda kosninganna. Sagði ráðið í tilkynningu á mánudag að herinn hefði meðal annars lagt auglýsingabann á dagblaðið Dawn eftir að það birti viðtal við NawazSharif.

Auk þess sagði HRCP frá því að í Punjab hafi fjarskiptayfirvöld verið neydd til þess að klippa á útsendingar þriggja sjónvarpsstöðva eða gera þær óaðgengilegri. Sagði ráðið að viðmælendur hefðu greint frá því að ónefndir starfsmenn leyniþjónustunnar hafi gefið fyrirmælin.

Þá hafa fjölmiðlamenn ítrekað fengið heimsóknir eða símtöl með fyrirmælum frá leyniþjónustunni. Mun fleiri dæmi um meint afskipti hers og leyniþjónustu af fjölmiðlum má finna í tilkynningum ráðsins.



Hryðjuverkaframboð

Fréttablaðið fjallaði í apríl um að Hafiz Saeed, maðurinn sem er sagður hafa staðið á bak við hryðjuverkaárásirnar á Mumbai árið 2008 þar sem 166 voru myrtir, færi fyrir flokknum Milli Muslim League sem ætlaði í framboð. Flokkurinn fékk hins vegar ekki skráningu og er Saeed sjálfur ekki í framboði.

Sonur hans, Hafiz Talha Saeed, er þó í framboði fyrir flokkinn Allah-o-Akbar og eru alls 79 frambjóðendur til þings tengdir hryðjuverkasamtökum Saeeds, Laskhar-e-Taiba. Auk þess eru á annað hundrað bandamanna Saeeds í framboði til fylkisþinga og sveitarstjórna.

Menn Saeeds eru þó ekki einir um að vera umdeildir í kosningum gærdagsins. Pakistanshreyfingin (TLP) nýtur nokkurs stuðnings í Punjab, þar sem fjögur prósent segjast ætla að kjósa flokkinn í skoðanakönnun frá IPOR.



Styðja morðingja

TLP er götuhreyfing undir stjórn klerksins Khadim Hussain Rizvi. Hún var stofnuð árið 2015 eftir aftöku morðingjans Mumtaz Qadri. Sá var hengdur fyrir að hafa ráðið Salmaan Taseer, ríkisstjóra Punjab, af dögum vegna áforma Taseers um að koma á vægari refsingum fyrir guðlast. Rizvi og menn hans hafa hampað morðingjanum sem hetju og hafa staðið fyrir fjölda fjölmennra mótmæla á götum úti.

Rizvi var í viðtali við Newsnight á BBC í vikunni og sagði Pakistan stofnað sem ríki múslima. Hann fullyrti að stofnendur ríkisins hefðu einnig staðið með mönnum eins og Qadri.

Aðspurður um stefnu TLP um að herða refsingar við guðlasti og hvernig það samræmdist því að dauðarefsing væri nú þegar við glæpnum sagði Rizvi: „Við viljum að gildandi lögum sé framfylgt og að samsærinu gegn guðlastslöggjöfinni verði hætt.“

Liðsmenn TLP hafa sjálfir reynt að leika eftir glæp Qadris. Í maí síðastliðnum reyndi stuðningsmaður hreyfingarinnar til að mynda að taka innanríkisráðherra Pakistans af lífi, eftir að ríkisstjórnin gerði orðalagsbreytingar á drengskaparheitum kjörinna fulltrúa.

Ráðherrann þáverandi, Ahsan Iqbal, sagði við BBC að Rizvi hefði skipað fylgismönnum TLP að kenna sér lexíu. „Það er óásættanlegt að slíkt ofbeldi og slík haturðsorðræða af hálfu flokks sem kjörstjórn hefur samþykkt sé liðin. Ég er nú með kúlu í líkamanum sem mun vera þar þangað til ég dey. Hún minnir mig á áskorarirnar sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Iqbal.


Tengdar fréttir

Hryðjuverkasamtök stefna á þingsæti

Bandaríkin setja pakistanskan stjórnmálaarm hryðjuverkasamtaka sem drápu á annað hundrað í Mumbai á hryðjuverkasamtakalistann. Flokkurinn, Milli Muslim League, hyggur á framboð í fyrsta sinn. Forsprakkinn, Hafiz Saeed, er einn eftirlýstasti maður heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×