Skoðun

Korktappar

María Bjarnadóttir skrifar
Í nýlegri bók, Fólkið gegn tækninni, fjallar blaðamaðurinn Jamie Bartlett um áhrif inter­netsins á lýðræðið. Hann telur ástæðu til að grípa til aðgerða áður en lýðræðið eins og við þekkjum það liðast í sundur. Hann segir sótt að réttindum einstaklinga með hinni hröðu tækniþróun, en ekki síður að stofnunum sem mynda stoðir lýðræðislegra samfélaga. Hann tekur sem dæmi stöðu fjölmiðla sem standi frammi fyrir fjármögnunarvanda sem takmarki getu þeirra til að standa undir hlutverki sínu sem fjórða valdið. Hugsanlega eru þetta engar fréttir. Varla fyrir fjölmiðla.

Fjölmiðlar stýra ekki lengur aðgengi að upplýsingum og fréttum. Með netinu hafa einstaklingar aðgang að áður óþekktu umfangi af upplýsingum, þó að það sé óhætt að halda því fram að magn og gæði fari þar ekki alltaf saman. Í krafti tækninnar geta fréttir, upplýsingar og skoðanir á örskotsstundu orðið aðgengilegar öllum, alltaf, alls staðar. Um leið og þessi veruleiki hefur verið valdeflandi og upplýsandi fyrir einstaklinga og hópa, hafa falsfréttir, rangfærslur og lygar fengið vængi og valdið tortryggni, ýtt undir samsæriskenningar og grafið undan trausti í samfélögum manna. Það má vel vera að sumar þeirra séu ekki traustsins verðar hvort eð er.

Það er þó óþægilegt að velta þessu fyrir sér í samhengi við rúmlega hálfrar aldar gamlan boðskap stjórnmálaheimspekingsins Hönnuh Arendt. Hún sagði að ef borgarar fljóti um eins og korktappar í ólgusjó, óvissir um hverju megi treysta eða trúa, verði þeir ginnkeyptir fyrir boðskap lýðskrumara.

Ætli internetið sé ólgusjór?




Skoðun

Sjá meira


×