Innlent

Kalla eftir aukafundi vegna heimilislausra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fulltrúar minnihlutans funduðu í gær.
Fulltrúar minnihlutans funduðu í gær. Aðsend
Minnihlutinn í borgarstjórn harmar það sem hann kallar „algjört aðgerðarleysi,“ í málefnum heimilislausra í Reykjavík. Í tilkynningu frá minnihlutanum segir að hann hafi fundað í gær um það „neyðarástand“ sem nú ríki í málaflokknum.

„Við þessar aðstæður er það fullkomið ábyrgðarleysi að borgarstjórn og fagráð borgarinnar séu nú komin í sumarleyfi án þess að leysa vandann,“ segir í tilkynningunni.

Þar er þess jafnframt getið að minnihlutinn hafi óskað eftir aukafundi í velferðarráði í sumar svo að setja mætti þessi mál á dagskrá „í heild sinni“ eins og það er orðað.

„Svörin voru á þann veg að ekki var unnt að verða við ósk um aukafund fyrr en 10. ágúst nk., á meðan eykst neyð heimilislausra með hverjum deginum.“

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að undanförnu að umboðsmaður Alþingis hafi sagt að almennur og viðvarandi vandi væri til staðar hjá Reykjavíkurborg í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks. Hið sama ætti við um hóp einstaklinga með fjölþættan vanda að því er fram kom í niðurstöðu frumkvæðisathugunar umboðsmanns. Fjölgað hefur í hópi utangarðsfólks í höfuðborginni um 95 prósent frá árinu 2012.

Minnihlutinn segir í tilkynningu sinni að hann hafi sammælst um að grípa þurfi  „strax til neyðarúrræða, hefjast handa við að leysa þennan alvarlega vanda til frambúðar“ og hefur hann farið fram á aukafund í borgarráði í næstu viku.

„Heimilislaust fólk fær ekki sumarfrí frá áhyggjum sínum og þeirri angist sem fylgir því að hafa ekki þak yfir höfuðið.“


Tengdar fréttir

Fyrirheit um aukið gegnsæi hjá Reykjavíkurborg segir Vigdís

Rætt um stöðu heimilislausra, eineltismál hjá borginni og niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í borgarráði í gær. Öll málin eru skandall fyrir borgina, segir Vigdís Hauksdóttir, en gleðst yfir auknu gegnsæi hjá borginni eftir samþykkt tillögu Sjálfstæðismanna um að fundir hjá borginni verði auglýstir með dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×