Erlent

75 dæmdir til dauða í Egyptalandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr réttarsalnum í dag.
Úr réttarsalnum í dag. Vísir/AFP
Dómstóll í Egyptalandi hefur dæmt 75 einstaklinga til dauða fyrir þátt þeirra í ofbeldisöldunni sem skall á landinu eftir að forsetanum Mohammed Morsi var vikið úr embætti árið 2013.

Í hópi þeirra eru meðal annars leiðtogar Bræðralags múslima, en samtökin eru ólögleg í landinu. Aftökudómarnir voru meðal niðurstaðna fjöldaréttarhalda þar sem dómar voru kveðnir upp yfir rúmlega 700 manns.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt réttarhöldin og bent á að þau stangist á við stjórnarskrá Egyptalands. Amnesty International telur þar að auki að þau hafi verið „stórkostlega ósanngjörn.“ Til að mynda hafi meðlimir öryggisveita, sem talin eru hafa myrt tuga mótmælenda í óeirðunum, aldrei verið yfirheyrðir.

Mál hinna dauðadæmdu hefur verið vísað til æðsta-múfta landsins, sem tekur lokaákvörðun um hvenær aftökurnar munu fara fram.

Um mánuði eftir að forsetanum Morsi var steypt af stóli brutust út mikil átök í Egyptalandi. Hundruð mótmælenda og tugir lögreglumanna féllu í óeirðunum. Meðal þeirra sem handtekin voru eftir átökin var hinn margverðlaunaði ljósmyndari Mahmoud Abou Zeid, sem er betur þekktur sem Shawkan. Hann hafði verið að ljósmynda óeirðirnar þegar hann var handtekinn.

Shawkan hefur setið á bakvið lás og slá allar götur síðan. Kveða átti upp dóm í máli hans í dag en dómararnir frestuðu dómsuppkvaðningunni.

Eftir óeirðirnar voru stuðningsmenn forsetans ofsóttir af yfirvöldum, sem og meðlimir Bræðralagsins - samtaka sem egypsk stjórnvöld telja nú til hryðjuverkahreyfinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×