Lífið

Ellefu ára píanósnillingur

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
"Ég reyni að æfa mig á hverjum degi, helst þrjár klukkustundir,“ segir Ásta.
"Ég reyni að æfa mig á hverjum degi, helst þrjár klukkustundir,“ segir Ásta. Fréttablaðið/Þórsteinn
Hin ellefu ára gamla Ásta Dóra Finnsdóttir leikur píanókonsert nr. 1 eftir Mendelssohn á lokatónleikum Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu laugardaginn 14. júlí klukkan 17.00. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir snilli sína í píanóleik og unnið til verðlauna í píanókeppnum í Póllandi, Englandi og Belgíu.

Ásta byrjaði tæplega fimm ára gömul að læra á píanó. „Pabbi minn setti mig í tónlistarskóla til að prófa og þegar ég fór í píanónám elskaði ég píanó,“ segir hún. „Ég er ekki mikið að leika mér með dúkkur, ef ég kæmi á stað þar sem væru dúkkur og píanó myndi ég ganga að píanóinu.“

Ekki mikið stress

Ásta, sem hefur stundað nám hjá Kristni Erni Kristinssyni í Allegro Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík, hefur þessa dagana sótt námskeið hjá Alþjóðlegu tónlistarakademíunni í Hörpu. „Ég reyni að æfa mig á hverjum degi, helst þrjár klukkustundir. Um daginn kom ég heim klukkan hálf átta eftir námskeið í Hörpu og fór að æfa mig og klukkan var næstum tíu þegar ég var búin,“ segir hún.

Hún er vön því að spila opinberlega og segist ekki finna mikið fyrir stressi. „Ég er kannski smástressuð þegar ég er að byrja að spila en þegar ég er komin inn í lagið þá er ég búin að venjast því og er ekki lengur stressuð,“ segir hún.



Spilað fyrir forsetann

Hún spilaði á Bessastöðum í tengslum við alþjóðlega EPTA-ráðstefnu sem haldin var hér á landi í september 2016 og meðal áheyrenda voru, auk forseta Íslands, margir erlendir píanókennarar. „Það var bara gaman. Ég spilaði nokturnu eftir Chopin. Þegar ég fór að píanóinu var fólk að horfa á mig og ég var aðeins stressuð af því það eru erfiðir tónstigar í laginu og ég þurfti að spila mjög hátt. Ég náði því alveg og gerði eiginlega engin mistök. Ég var mjög glöð því ég vissi að ég spilaði vel og það var það sem mig langaði til að gera.“

Hún spilaði einnig á hundrað ára afmæli Viðskiptaráðs í Háskólabíói þar sem áheyrendur voru 800 og forsetinn var meðal gesta. „Hann kom til mín og sagði: Ég man eftir þér. Ég var mjög hissa að hann skyldi muna eftir mér,“ segir Ásta.



Engar sérstakar fyrirmyndir

Hún segist ekki eiga neinar sérstakar fyrirmyndir í píanóheiminum: „Ég elska að hlusta á góða píanóleikara en ég er ekki mikið að líta upp til þeirra.“ Uppáhaldsverkin eru svo breytileg hverju sinni: „Á síðasta ári þurfti ég að spila Schumann-kvintett og ég elskaði það og sagði að það væri uppáhaldsverkið mitt. Núna er ég að æfa sónötu eftir Grieg og sagði: Þetta er uppáhaldsverkið mitt.“ Spurð um uppáhaldstónskáld segir hún: „Þetta er erfitt. Má ég segja þrjá?“ Það má hún að sjálfsögðu og nefnir þá Grieg, Chopin og Mendelssohn.

Píanókonsertinn sem Ásta Dóra ætlar að spila má heyra hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×