Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: Giskað í eyðurnar um agabann Björgvins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björgvin Stefánsson, framherji KR, var ekki í leikmannahópi liðsins í 1-1 jafnteflisleiknum á móti Val í síðustu viku þar sem að hann var í agabanni en Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, greindi frá því í viðtali fyrir leik.

Rúnar fór ekki nánar út í agabannið eða hvers vegna hann greip til þess ráðs að setja Björgvin í slíkt og hefur enginn komist að sannleikanum fimm dögum síðar. Þetta mál var til umræðu í Pepsi-mörkunum á Stöð 2 Sport HD í gær.

„Það er jafnmikið af agabönnum hér og annars staðar. Mín skoðun er sú að því fleiri reglur sem þú hefur sem þjálfari því fleiri agabönn verða. Það segir sig sjálft að það eru hlutir sem leikmenn vita að þeir mega ekki gera. Þeir mega ekki fara yfir á rauðu ljósi og það má ekki taka ólögleg lyf,“ sagði Þorvaldur Örlygsson.

Gunnar Jarl Jónsson sagði að á endanum myndi fólk komast að því hvers vegna Björgvin væri í agabanni en þangað til væru menn bara að búa til sögur.

„Þú munt alltaf frétta ástæðuna á litla Íslandi. Það gefur sér augaleið að eitthvað átti sér stað og því miður verður fólk að fylla upp í eyðurnar,“ sagði Gunnar og Þorvaldur bætti við:

„Þetta er ekki bara leiðinlegt fyrir Björgvin heldur bara hópinn. Það er algjör óþarfi að vera gera eitthvað sem þarf að taka á. Þetta er ekki það langt mót að menn þurfi að brasa við það að setja á agabönn.“

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×