Erlent

Afkastamesti fjarreikistjörnukönnuðurinn nálgast endalokin

Kjartan Kjartansson skrifar
Kepler var komið fyrir um 150 kílómetrum á eftir jörðinni á braut hennar um sólina. Því var ekki hlaupið að því að gera við hjól sem héldu sjónaukanum stöðugum þegar þau biluðu 2012 og 2013.
Kepler var komið fyrir um 150 kílómetrum á eftir jörðinni á braut hennar um sólina. Því var ekki hlaupið að því að gera við hjól sem héldu sjónaukanum stöðugum þegar þau biluðu 2012 og 2013. NASA
Kepler-geimsjónaukinn hefur verið settur í dvala eftir að stjórnendur leiðangursins hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA fengu tilkynningu um að eldsneytisbirgðir hans væru nær að þrotum komnar. Sjónaukinn hefur fundið þúsundir fjarreikistjarna frá því að hann var tekinn í notkun árið 2009.

Stjórnendur Kepler hafa fylgst grannt með eldsneytisbirgðum sjónaukans undanfarið. Búist er við því að þær klárist á næstu mánuðum. Þeir ákváðu að setja sjónaukann í dvala á meðan þeir ná í gögn sem hann hefur safnað í síðasta verkefni sínu, að því er segir í frétt á vef NASA.

Kepler verður vakinn af værum blundi 2. ágúst og loftneti sjónaukans beint að jörðinni til að senda gögnin heim. Gangi allt að óskum hefur Kepler nýtt rannsóknaverkefni 6. ágúst þangað til eldsneytið þrýtur endanlega. Forgangsmál er hins vegar að koma gögnunum sem þegar hefur verið safnað til skila áður.

Markmið Kepler-leiðangursins var að leita að fjarreikistjörnum í Vetrarbrautinni. Á þeim rúmu níu árum sem sjónaukinn hefur verið í geimnum hefur hann fundið 2.650 staðfestar fjarreikistjörnur og fjölda annarra sem ekki hafa verið staðfestar.

Leiðangurinn hefur ítrekað verið framlengdur en hann átti upphaflega að standa yfir í þrjú og hálft ár. Endist eldsneytið hefur Kepler sitt átjánda athuganaverkefni í næsta mánuði.

Hugvit verkfræðinga leiðangursins komu í veg fyrir að honum lyki fyrir fimm árum. Þá höfðu tvö hjól sem halda sjónaukanum stöðugum bilað. Án þeirra hefði verið útilokað fyrir sjónaukann að halda áfram athugununum sem krefjast gríðarlegrar nákvæmni.

Verkfræðingunum hugkvæmdist að nota þrýsting frá geislum sólarinnar á sólarrafhlöður sjónaukans til þess að halda honum stöðugum.


Tengdar fréttir

Geimsjónauki NASA á síðustu dropunum

Kepler-geimsjónaukinn hefur fundið aragrúa fjarreikistjarna frá því að honum var skotið á loft árið 2009. Leiðrangrinum lýkur á næstu mánuðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×