Erlent

Flóðin í Japan þau mannskæðustu í þrjátíu ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk virðir fyrir sér eyðilegginguna í bænum Mabi í Okayama-héraði.
Fólk virðir fyrir sér eyðilegginguna í bænum Mabi í Okayama-héraði. Vísir/EPA
Nú er 141 sagður hafa farist í flóðum og skriðum af völdum úrhellisrigninga í Japan. Mannskaðinn er sá versti í flóðum þar í að minnsta kosti þrjá áratugi. Björgunarlið leita enn að fólki í aur og húsarústum og tuga er enn saknað.

Um tvær milljónir manna hafa verið látnar yfirgefa heimili sín á vestanverðri Honshu-eyju, stærstu og fjölmennustu eyju Japans, eftir að ár flæddu yfir farvegi sína, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Fólk hefur hafst við í skólum og íþróttahúsum sem yfirvöld hafa notað sem neyðarskýli.

AP-fréttastofan segir að fleiri en fimmtíu hafi enn verið saknað þegar dagur var að kvöldi kominn í Japan í dag, flestir þeirra á Hiroshima-svæðinu þar sem ástandið hefur verið verst. Víða er rafmagnslaust og skortur er á drykkjarvatni og matvælum.

Úrkoman sem valdið hefur hamförunum er söguleg. Frá því á fimmtudag hefur úrkoman mælst þrefalt meiri en venjulega mælist í öllum júlímánuði þar.

Fleiri en sjötíu þúsund björgunarmanna vinna að aðgerðum á svæðinu, þar á meðal her- og slökkviliðsmenn. Spáð er skaplegra veðri næstu daga sem ætti að létta björgunarstörfin. Enn er þó sögð hætta á skriðum og flóðum á sumum svæðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×