Viðskipti innlent

Hagnaður World Class dróst saman um þriðjung

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Björn Leifsson og eiginkona hans eru stærstu hluthafar félagsins.
Björn Leifsson og eiginkona hans eru stærstu hluthafar félagsins. VÍSIR/GVA
Hagnaður Lauga ehf., sem rekur líkamsræktarstöðvar World Class, nam 193 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 32 prósent frá fyrra ári þegar hann var 282 milljónir, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu ríflega 2,9 milljörðum króna í fyrra og jukust um 22 prósent frá árinu 2016 þegar þær voru tæplega 2,4 milljarðar. Rekstrargjöldin voru 2,6 milljarðar á síðasta ári borið saman við 1,9 milljarða króna á árinu 2016. Þar af hækkaði launakostnaður um 18 prósent á milli ára en hann nam liðlega 1,1 milljarði króna í fyrra.

Starfsmenn samstæðunnar voru að meðaltali 109 talsins á árinu. Samstæðan átti eignir upp á 3,9 milljarða króna í lok síðasta árs og var eigið fé hennar um 703 milljónir króna á sama tíma. Skuldirnar voru 3,2 milljarðar króna og þar af 2,4 milljarða skammtímaskuldir.

Stjórn Lauga ákvað að úthluta engum arði vegna síðasta árs. Hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir eru stærstu hluthafar félagsins með 36,6 prósenta hlut hvort en Sigurður Júlíus Leifsson á 26,8 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×