Viðskipti erlent

Mannauðsstjóri Uber segir upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Liane Hornsey er sögð hafa talað niður til starfsmanna sem voru af erlendum uppruna og hunsað kvartanir um kynþáttamismunun.
Liane Hornsey er sögð hafa talað niður til starfsmanna sem voru af erlendum uppruna og hunsað kvartanir um kynþáttamismunun. UBEr
Mannauðsstjóri deilibílaþjónustunnar Uber hefur sagt upp störfum eftir aðeins 18 mánuði hjá fyrirtækinu. Mannauðstjórinn fráfarandi, Liane Hornsey, tilkynnti um uppsögn sína í tölvupósti til starfsmanna í gær. Innri rannsókn hjá Uber, sem ráðist var í eftir nafnlausa ábendingu, leiddi í ljós að Hornsey hafði markvisst hunsað tilkynningar um kynþáttamismunun sem henni hefðu borist á því einu og hálfa ári sem hún starfaði hjá fyrirtækinu.

Hornsey hafði verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum þar sem hún þótti standa sig vel í að svara fyrir orðróma um ásakanirnar. Fyrirtækið hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum vegna reglulegra frétta af hvers kyns mismunun sem afhjúpuð hefur verið hjá Uber.

Uppsögn Horsney er sögð varpa enn frekara ljósi á þann vanda sem framkvæmdastjóri Uber, Dara Khosrowshahi, stendur frammi fyrir en hann hefur á síðustu misserum reynt að vinna bug á því „eitraða andrúmslofti“ sem bitnað hefur á starfseminni.

Í fyrrnefndum tölvupósti þakkaði framkvæmdastjórinn Hornsey fyrir vel unnin störf og hrósaði henni fyrir dugnað. Ekkert er þó minnst á ástæðu uppsagnarinnar í póstinum en haft er eftir Hornsey að hún hafi lengi íhugað að segja upp. Hún hefur ekki viljað tjá sig um málið við erlenda miðla.


Tengdar fréttir

Stefnt að því að afnema stöðvaskyldu og kvóta

Stefnt að því að breyta rekstrarumhverfi leigubifreiða fyrir 2020. Hanna Katrín Friðriksson saknar þess að minnst sé á tækninýjungar við gjaldtöku. Slíkt gæti gert fyrirtækjum á borð við Uber hægara um vik að hefja starfsemi hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×