Innlent

Dæmdur fyrir að hrella unga stúlku á meðan hann var undir áhrifum LSD

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Fréttablaðið/valli

Karlmaður á þrítugsaldri hefur hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir að ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot með því að hafa hlaupið ógnandi og öskrandi á eftir fjórtán ára gamalli stúlku en maðurinn viðurkenndi að hafa verið undir áhrifum ofskynjunarlyfsins LSD.



Atvikið átti sér stað í Reykjavík árið 2016 þegar maðurinn var 21 árs gamall. Hann náði taki á úlpuermi stúlkunnar, hélt henni fastri og öskraði á hana þar til íbúi kom út og náði að koma stúlkunni inn á heimili sitt. Reyndi maðurinn að komast öskrandi inn á eftir þeim þannig að halda þurfti hurðinni.



Maðurinn gekkst við brotinu og sagðist iðrast gjörða sinna sem hann hefði sýnt í verki með því að leita sér aðstoðar. Atvikið fékk á hann andlega en honum tókst að vinna úr því með ábyrgum hætti.



Héraðsdómur Reykjavíkur tók fram að maðurinn væri ábyrgur gjörða sinna þó hann væri undir áhrifum ofskynjunarlyfja. Á hinn bóginn var lagt til grundvallar að ásetningur mannsins hefði verið þokukenndur umrætt sinn.



Ekki lá fyrir bótakrafa í málinu og var ráðið af framburði stúlkunnar að atvikið hefði ekki valdið henni verulegri vanlíðan. Dómurinn leit þó háttsemi mannsins alvarlegum augum enda til þess fallin að valda stúlkunni mikilli hræðslu.



Var það niðurstaða dómsins að fresta refsingu mannsins og skilorðsbinda til tveggja ára.



Maðurinn var auk þess dæmdur til að greiða rúmar sjö hundruð þúsund krónur í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×