Enski boltinn

Forseti Napoli: Maurizio Sarri og Jorginho á leið til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri
Maurizio Sarri Vísir/Getty
Antonio Conte er byrjaður að undirbúa Chelsea-liðið fyrir komandi tímabil en það lítur ekki út fyrir að Ítalinn stýri liðinu þegar tímabilið byrjar í ágúst.

Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, staðfesti í dag að Maurizio Sarri sé að ganga frá sínum málum svo hann geti orðið næsti knattspyrnustjóri Chelsea. Sky Sports segir frá.

„Sarri er nálægt því að taka við Chelsea. Lögmennirnir mínir eru að ganga frá hlutunum með lögmönnum hans,“ sagði Aurelio De Laurentiis.

Aurelio De Laurentiis hefur ráðið Carlo Ancelotti sem eftirmann Maurizio Sarri hjá Napoli og var að kynna hann formlega í dag.

Hinn 51 árs gamli Maurizio Sarri mun væntanlega ganga endanlega frá sínum málum í kvöld og í framhaldinu mun Antonio Conte taka pokann sinn á Stamford Bridge. Antonio Conte á eftir tólf mánuði af samningi sínum sem gaf honum samtals níu milljónir punda í vasann.





De Laurentiis sagði jafnframt frá því að Brasilíumaðurinn Jorginho vilji frekar fara til Chelsea en til Manchester City en bæði liðin eru á eftir þessum öfluga leikmanni.

„Leikmaðurinn vill frekar búa í London en í Manchester. Ég skil hann vel,“ sagði Aurelio De Laurentiis en bætti við: „Ég skil það líka vel ef Chelsea vill borga honum hærri laun en City,“ sagði De Laurentiis og bað um leið Khaldoon [Al Mubarak], stjórnarformann Manchester City, afsökunar.

„Ég ræð þessu ekki. Ef Jorginho fer til Chelsea þá tengist það ekkert samkomulagi mínu og Roman Abramovich um að Sarri taki við Chelsea-liðinu,“ sagði De Laurentiis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×