Viðskipti innlent

Gagnrýna flugfélögin vegna gildistíma gjafabréfa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Neytandasamtökin segjast ekki geta ráðlagt fólki að kaupa gjafabréf flugfélaganna.
Neytandasamtökin segjast ekki geta ráðlagt fólki að kaupa gjafabréf flugfélaganna. Fréttablaðið/GVA
Neytendasamtökin segja að þau gjafabréf sem langmest er kvartað yfir til samtakanna séu gjafabréf flugfélaganna. Allt of algengt sé að gildistími þeirra renni út áður en eigandinn nær að nýta sér inneignina og eru samtökin gagnrýnin á Icelandair og WOW air vegna gjafabréfanna.

Í frétt á vef samtakanna segir að samtökin hafi í gegnum tíðina gagnrýnt skamman gildistíma gjafabréfanna og telja samtökin að eðlilegur gildistími þeirra ætti að vera fjögur ár, sem sé almennur fyrningarfrestur á kröfum. Gildistími á gjafabréfum Icelandair er tvö ár en WOW air seldi gjafabréf sem voru í gildi í eitt ár, en er hætt að selja gjafabréf eftir kvörtun Neytendasamtakanna.

„Samkvæmt þeim kvörtunum sem samtökunum berast vegna gjafabréfa WOW air hefur hins vegar verið lítill vilji til að framlengja gildistímann. Neytendasamtökin hvetja WOW air til að leysa úr þeim gjafabréfamálum sem út af standa enda skilmálar gjafabréfanna beinlínis ósanngjarnir,“ segir í fréttinni þar sem einnig er bent á að enn berist kvartanir vegna gjafabréfa WOW air þrátt fyrir að látið hafi verið af sölu þeirra.

Þá berist einnig kvartanir vegna gjafabréfa Icelandair en þær eru færri enda gildistíminn aðeins lengri. Hvetja samtökin þó Icelandair til þess að lengja gildistímann í fjögur ár.

„Fyrirtæki sem selja gjafabréf hafa fengið fjármagn inn í reksturinn og í raun mætti í þessu sambandi tala um vaxtalaust lán. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að inneignin fyrnist án þess að neytandinn hafi nokkuð um það að segja,“ segir í fréttinni og ráðleggja samtökin neytendum ekki að kaupa gjafabréf flugfélaganna.


Tengdar fréttir

Óljós réttur neytenda varðandi gjafabréf

Níu þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að skipaður verði starfshópur til að fara yfir verklagsreglur varðandi skilarétt neytenda og tímamörk varðandi gjafabréf og inneignarnótur. Flutningsmaður tillögunnar segir að réttur neytenda í þessum málum sé óljós og reglurnar mismunandi eftir verslunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×