Erlent

Merkel svarar fyrir sig eftir gagnrýni Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Angela Merkel lætur orð Bandaríkjaforseta ekki hafa of mikil áhrif á sig.
Angela Merkel lætur orð Bandaríkjaforseta ekki hafa of mikil áhrif á sig. Vísir/Getty

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gefur lítið fyrir ummæli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að stjórnvöld í Berlín séu „strengjabrúður Rússa“. Hún segir Þjóðverja hafa reynslu af því að vera undir hæl yfirvalda í Moskvu en sú sé ekki raunin nú. BBC greinir frá.

Trump lét Þjóðverja heyra það á fyrsta degi leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem nú stendur yfir í Brussel. Sagði Trump að samband Þýskalands og Rússlands væri „óviðeigandi“ í ljósi þess hversu mikla orku Þjóðverjar keyptu af Rússum.

Trump kvartaði á fundinum í morgun yfir því að fjölmargir framámenn í þýskum stjórnmálum hafi sagt skilið við pólítíkina og farið að vinna fyrir rússnesk orkufyrirtæki. Það þætti honum einnig gríðarlega óviðeigandi. „Þýskaland er undir fullkominni stjórn Rússlands,“ sagði Trump.

Vísaði til yfirráða Sovétríkjanna yfir Austur-Þýskalandi

„Ég vil bara segja að ég hef reynslu af því þegar hluta Þýskalands var stjórnað af Sovétríkjunum,“ sagði Merkel sem ólst upp í Austur-Þýskalandi.

Sagðist hún vera mjög hamingjusöm yfir því að Austur- og Vestur-Þýskaland hafi sameinast um það frelsi sem nú ríki í hinu sameinaða Þýskalandi.

„Vegna þess getum við sagt að við ákveðum sjálf okkar stefnu og tökum sjálfstæðar ákvarðarnir,“ sagði Merkel við viðstadda blaðamenn. „Það er mjög gott, sérstaklega fyrir þá sem búa í austuhluta Þýskalands.“

Árásir Trump á Þýskaland eru raktar til óánægju hans með framlög stjórnvalda í Berlín til NATO-samstarfsins. Bandaríkjaforseti telur ótækt að ríki hans greiði langstærstan hluta kostnaðarins, sérstaklega í ljósi þess að Þjóðverjar verji aðeins um einu prósenti af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála, samanborið við 3,5 prósent Bandaríkjanna.

Þjóðverjar hafa í hyggju að tvöfalda framlag sitt til varnarmála fyrir árið 2030 og varði Merkel framlag Þýskalands til NATO.

„Við tökum enn þátt í aðgerðum í Afganistan af miklum krafti og þar af leiðandi verjum við líka hagsmuni Bandaríkjanna. Það er Þýskalandi ánægja að gera það og við gerum það af heilum hug,“ sagði Merkel.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.