Lífið

John Cleese fluttur, hann kveður, hann er farinn, hann er fyrrverandi íbúi Bretlands

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Cleese heldur uppi páfagauk sem er látinn, dáinn, fallinn frá, farinn á vit feðra sinna og hefur sungið sitt síðasta. Þetta er fyrrverandi páfagaukur.
Cleese heldur uppi páfagauk sem er látinn, dáinn, fallinn frá, farinn á vit feðra sinna og hefur sungið sitt síðasta. Þetta er fyrrverandi páfagaukur. Vísir/Getty
Breski grínistinn John Cleese hefur sagt skilið við Bretland fyrir fullt og allt að eigin sögn og er fluttur til eyjarinnar Nevis í Karíbahafinu.

Cleese er 78 ára gamall og á að baki glæstan feril sem einn virtasti frumkvöðull breskra gamanmála. Hann hefur gins vegar glímt við fjárhagsleg vandræði á efri árum og hefur þurft að halda áfram að vinna í stað þess að eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Það er meðal annars ástæða þess að hann lék í auglýsingum Kaupþings á sínum tíma og ferðaðist um heiminn með sviðssýningar byggðar á fyrri verkum sínum.

Cleese er sennilega þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum Monty Python, auk þess sem hann gerði hina sígildu þætti Fawlty Towers eða Hótel Tindastól.

Cleese ásamt samleikurum sínum í Fawlty Towers þáttaröðinni, á kunnuglegum slóðumVísir/Getty
Í samtali við breska ríkisútvarpið segir Cleese að hann sé búinn að fá sig full saddan af lygum og ómerkilegheitum breskra fjölmiðla. Þá hafi öll umræða í bresku samfélagi í sambandi við úrsögn úr Evrópusambandinu verið á afar lágu plani.

Brexit umræðan sé eitt það sorglegasta sem hann hafi fylgst með á Bretlandseyjum. Stjórnmálamenn hafi logið blákalt að kjósendum um að úrsögn úr Evrópusambandinu myndi spara endalausa milljarða sem myndu fara beint í að bæta heilbrigðiskerfið.

Á sama tíma hafi þeir sem börðust gegn Brexit beitt gegndarlausum hræðsluáróðri án þess að hafa hugmynd um hvort verstu spár þeirra myndu rætast.

Cleese er flokksbundinn Frjálslyndur Demókrati og hefur meðal annars barist fyrir lýðræðisumbótum og breytingum á lagaumhverfi fjölmiðla. Hann afþakkaði þó sæti í lávarðadeild breska þingsins sem honum bauðst árið 1999.

Cleese segir að sér hafi sérstaklega fallist hendur eftir að núverandi hægristjórn gerði lítið úr niðurstöðum Levinson rannsóknarinnar og hefti framgöngu hennar.

Rannsókn Levinsons beindist að starfsumhverfi og regluverki fjölmiðla í kjölfar uppljóstrana um símahleranir fjölmiðla í eigu Ruperts Murdoch.

Segir Cleese að þá hafi sér endanlega verið nóg boðið og því hafi hann fest kaup á eigulegu húsi í Karíbahafinu. Húsið er á eyjunni Nevis og hyggst Cleese flytjast búferlum í haust. Hann verður þá einn aðeins 11 þúsund íbúa eyjunnar.

Cleese segir Nevis vera einhverja fallegustu eyju sem hann hafi séð og fólkið sé yndislegt. Þá séu samskipti ólíkra kynþátta á Nevis til fyrirmyndar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×