Stýra umfjöllun um tollastríðið

Svo virðist sem kínverska ríkisstjórnin reyni nú að koma í veg fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti beiti sér af meiri hörku í tollastríðinu. Reuters greindi frá því í gær og hafði eftir heimildarmönnum sínum að ríkisstjórn Xi Jinping forseta hefði bannað ríkisfjölmiðlum að gagnrýna Trump.
„Í gagnrýni ykkar á gjörðir og málflutning Bandaríkjamanna skulið þið passa að tengja það ekki Trump sjálfum heldur beina því að bandarísku ríkisstjórninni í heild,“ segir til dæmis í minnisblaði með leiðbeiningum sem fjölmiðlar fengu sent. Sagði þar enn fremur að miðlarnir yrðu að hjálpa til við að koma stöðugleika á í kínverska hagkerfinu, stuðla að hagvexti, fullri atvinnu sem og stöðugleika í milliríkjaviðskiptum.
Viðmælandi Reuters, blaðamaður á stórum, ónefndum, kínverskum fréttavef, sagði reglurnar þær ströngustu til þessa. Miðillinn mætti eingöngu birta fréttir um tollastríðið sem þegar hefðu birst á ríkismiðlinum Xinhua, en ekki skrifa sínar eigin. Þá mættu fréttir um tollastríðið ekki fara á topp vefsíðunnar.
Ríkisstjórnin Kína sakaði Bandaríkjastjórn þó um að ganga fram af of mikilli hörku í gær og varaði við mótaðgerðum eftir að Bandaríkjastjórn innleiddi tíu prósent tolla á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða Bandaríkjadala.
Tengdar fréttir

Fyrstu skotunum í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína hleypt af
Hætta er á að viðskiptastríð Trump Bandaríkjaforseta og Kína harðni enn á næstunni.

Tollastríð gæti leitt til skjálfta í öllu efnahagslífi heimsins
Formlegt tollastríð er skollið á milli tveggja stærstu hagkerfa heims, það er að segja Bandaríkjanna og Kína.

Stærstu viðskiptasamtök Bandaríkjanna gagnrýna tollastefnu Trump
Viðskiptaráð Bandaríkjanna fylgir Repúblikanaflokknum yfirleitt að málum en hefur nú hafið herferð gegn verndartollum forsetans.