Erlent

Lengstu neglur í heimi fengu að fjúka

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Neglurnar eru samtals um 9 metrar að lengd.
Neglurnar eru samtals um 9 metrar að lengd. GWR
Indverjinn Shridhar Chillal gafst í gær upp á ógnarlöngum nöglunum sem hann hefur látið vaxa undanfarin 66 ár. Í Ripley’s Believe It or Not!-safninu í New York lét hann fagmann, vopnaðan grímu og rafdrifnum klippum, fjarlægja allar neglurnar á vinstri höndinni - sem samtals voru næstum 9 metrar að lengd.

Neglurnar komu Chillal í heimsmetabók Guinness fyrir lengstu neglur sem nokkur maður hefur látið vaxa á annarri hendi. Sá indverski byrjaði að safna nöglunum þegar hann var 14 ára gamall eftir að hafa óvart brotið mjög langa nögl kennarans síns. Chillal segir að kennarinn hafi hreytt í hann að „hann vissi ekki hvað það væri erfitt að láta sér vaxa svona langar neglur nema hann myndi prófa það sjálfur.“ Svo það er það sem Chillal ákvað að gera.

Hann hefur áður lýst því hvað naglaflóðið hefur gert líf hans flókið. Neglurnar séu mjög viðkvæmar og óttast hann alltaf að brjóta þær í svefni. Því hafi hann alltaf þurft að vakna á klukkutíma fresti til að færa höndina. Þá hafi neglurnar oft valdið honum miklum sársauka. Þær hafi þó haft sína kosti líka. „Ég hef aldrei þurft að bíða í röð,“ segir Chillal kíminn í samtali við heimsmetabókina.

Myndband frá naglaklippingarathöfninni má sjá hér að neðan. Neglurnar munu framvegis verða til sýnis á fyrrnefndu Ripley’s Believe It or Not!-safni í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×