Enski boltinn

Á leið til Fulham eftir að hafa verið orðaður við stærstu lið heims

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jean-Michael Seri
Jean-Michael Seri vísir/getty
Fílbeinsstrendingurinn Jean-Michael Seri er við það að ganga til liðs við nýliða Fulham í ensku úrvalsdeildinni þar sem tilboð Lundúnarliðsins upp á 35 milljónir punda virkjar ákvæði í samningi kappans.

Fulham vonast til þess að ganga frá kaupunum um helgina en Seri hefur verið í lykilhlutverki á miðju Nice undanfarin þrjú ár.

Fari svo að Fulham nái að ganga frá samningum við þennan 26 ára gamla miðjumann verður það að teljast nokkuð óvænt félagaskipti þar sem hann hefur verið orðaður við stærstu lið heims frá því síðasta sumar.

Hann var til að mynda hársbreidd frá því að ganga í raðir Barcelona síðasta sumar en Nice neitaði þá að selja hann, leikmanninum til mikillar óánægju og fór hann um tíma í verkfall til að mótmæla ákvörðun franska félagsins.

Hann kom fljótt til baka úr því og átti gott tímabil í frönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem Nice hafnaði í 8.sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Seri er nú staddur í London þar sem hann á í viðræðum við Fulham en enskir fjölmiðlar töldu fyrst að hann væri kominn til Lundúna til að ræða við Arsenal eða Chelsea þar sem Seri hefur verið orðaður við þau lið auk Borussia Dortmund.

Fulham vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Aston Villa í úrslitaleik umspilsins á Wembley en liðið hafnaði í þriðja sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð. Fulham lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2013-2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×