Fótbolti

Fimmti Steingrímsson-bróðirinn skoraði fyrir Völsung

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Jóhann Steingrímsson fagnar fyrsta marki sínu fyrir Völsung.
Ólafur Jóhann Steingrímsson fagnar fyrsta marki sínu fyrir Völsung. mynd/Hafþór-640.is

Ólafur Jóhann Steingrímsson, 19 ára gamall leikmaður Völsungs í 2. deild karla í fótbolta, tryggði Húsvíkingum 1-0 sigur á Tindastóli með dramatísku sigurmarki í uppbótartíma í gærkvöldi.

Ólafur Jóhann skoraði þarna sitt fyrsta mark í meistaraflokki fyrir Völsung en hann hefur verið stjarna í yngri flokkum félagsins um árabil og var valinn besti leikmaður 2. flokks í fyrra.

Hann varð í gærkvöldi fimmti Steingrímsson-bróðirinn sem skorar fyrir Völsung en Ólafur Jóhann á fjóra bræður sem spilað hafa fyrir þá grænu og skorað að minnsta kosti eitt mark.

Hallgrímur Mar spilar fyrir KA eins og Hrannar Björn vísir/bára

Guðmundur Óli fyrstur

Guðmundur Óli Steingrímsson er sá elsti (f. 1986) en hann var í byrjunarliðinu í gær. Ólafur kom inn af bekknum á 75. mínútu og varð hetjan með þessu fyrsta marki sínu fyrir meistaraflokkinn.

Guðmundur Óli spilaði sinn fyrsta leik á móti Fjölni 20. maí 2003 og skoraði sitt fyrsta mark í 6-0 bursti á Létti í 2. deildinni níu dögum síðan.

Hann á leiki fyrir KA eins og þeir Hallgrímur Mar (f. 1990) og Hrannar Björn (f. 1992) sem báðir eru byrjunarliðsmenn hjá KA í Pepsi-deildinni í dag.

Hallgrímur Mar þykir besti sonur Steingríms á fótboltavellinum en hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Völsung 21. júlí 2007 á móti Aftureldingu en skoraði sitt fyrsta mark nánast sléttu ári síðar í 3-1 sigri á móti Gróttu.

Andri Valur fylgist með bróður sínum taka innkast. Hann er hæstur til að skora. mynd/Hafþór-640.is

Einn í viðbót

Hrannar Björn spilaði sinn fyrsta leik fyrir Völsung 26. maí 2008 og skoraði sitt fyrsta mark í lok ágúst sama ár í 2-2 jafntefli gegn Reyni en allir skoruðu sitt fyrsta mark fyrir Völsung í 2. deildinni.

Eini bróðirinn sem er ekki að spila lengur er Sveinbjörn Már Steingrímsson (f. 1988).

Hann lagði skóna á hilluna sem leikmaður Álftanes árið 2015 en spilaði sinn fyrsta leik fyrir Völsung í júlí 2007 í sama leik og Hallgrímur Mar. Hann skoraði sitt fyrsta og eina mark fyrir þá grænu 5. ágúst 2011 í 6-0 sigri á Árborg.

Nú ef fólki þykir ekki nóg að fimm Steingrímssynir eru búnir að skora fyrir Völsung þá er von á þeim sjötta eftir nokkur ár. Andri Valur Bergmann Steingrímsson er nefnilega ungur og efnilegur snáði í sjötta flokki Völsungs en hann var boltastrákur á leiknum í gær þar sem að Ólafur Jóhann skoraði sitt fyrsta mark.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.