Viðskipti erlent

Stefnir hraðbyri á að verða yngsti sjálfskapaði milljarðamæringurinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Kylie Jenner hefur úr ansi miklu að moða.
Kylie Jenner hefur úr ansi miklu að moða. Vísir/Getty
Ungstirnið bandaríska Kylie Jenner stefnir hraðbyri að því að verða yngsti sjálfskapaði milljarðamæringurinn, að því er fram kemur í bandaríska tímaritinu Forbes.

Auðæfi Kylie Jenner, sem er aðeins tvítug að aldri, eru metin á 900 milljónir dollara, eða því sem nemur um rúmlega 96 milljörðum íslenskra króna.

Jenner tilheyrir Kardashian-fjölskyldunni sem er þekkt víða um heim, sérstaklega vegna raunveruleikaþáttarins Keeping Up with the Kardashians sem fylgir eftir lífi fjölskyldunnar og störfum.

Kylie Jenner er yngst systkinanna en hún hóf sölu á eigin snyrtivörulínu fyrir þremur árum.

Systir hennar, hin 37 ára gamla Kim Kardashian West, er metin á 350 milljónir dollara.

Jenner, sem má ekki einu sinni smakka á áfengi í Bandaríkjunum sökum aldurs, verður tuttugu og eins árs í ágúst næstkomandi en hún prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Forbes-tímaritsins.

Snyrtivörulínan hennar hefur selst gríðarlega vel í vefverslunum og bíða aðdáendur hennar jafnan spenntir eftir nýjustu vörunum sem rjúka út eins og heitar lummur.

Auðæfi hennar eru mun meiri en stórra stjarna í Bandaríkjunum, þar á meðal Beyoncé Knowles og Taylor Swift, en auðæfi þeirra eru metin á 335 milljónir dollara og 320 milljónir dollara.

Kylie var 10 ára gömul þegar fyrsti þátturinn af Keeping Up with the Kardashians var sýndur árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×