Fótbolti

Íslandsáhrifin eru sterk á stórmótunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Króatíski snillingurinn Luka Modric reynir að loka á Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Króatíu á HM 2018.
Króatíski snillingurinn Luka Modric reynir að loka á Jóhann Berg Guðmundsson í leik Íslands og Króatíu á HM 2018. Vísir/Getty
Bestu lið heims fagna því örugglega þegar þau dragast næst í riðil með íslensku landsliði á stórmóti á vegum FIBA, FIFA eða UEFA.

Þau mega vissulega búast við erfiðum leikjum á móti baráttuglöðum íslenskum landsliðsmönnum en um leið fylla þau á lukkubensíntankinn sinn.

Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri Körfuknattleikssamband Íslands, benti á skemmtilega staðreynd á fésbókinni eftir að Króatar komust í úrslitaleikinn á HM.

Það hefur nefnilega verið mjög gott að vera í riðli með Íslandi á stórmótum í fótbolta og körfubolta eins og reynsla síðustu fjögurra ára hefur sannað.

Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu unnu EM 2016.Vísir/Getty
Íslandsáhrifin sterk á stórmótunum 2015-2018:

EM í körfu 2015, Ísland í riðli með Spáni og Spánn Evrópumeistari.

EM í fótbolta 2016, Ísland í riðli með Portúgal og Portúgal Evrópumeistari.

EM í körfu 2017, Ísland í riðli með Slóveníu og Slóvenía Evrópumeistari.

HM í fótbolta 2018, Ísland í riðli með Króatíu og ??????

Goran Dragic og félagar í slóvenska landsliðinu unnu EM í körfu 2017.Vísir/Getty
Króatarnir eiga reyndar eftir að fara í mjög erfiðan úrslitaleika á móti Frökkum þar sem flestir knattspyrnuspekingar spá örugglega franska landsliðinu sigri.

Þannig var einnig staða Portúgala á EM fyrir tveimur árum. Þá mættu þeir öflugu frönsku landsliði í úrslitaleiknum en unnu samt og það þótt að Frakkarnir væru á heimavelli.

Það bjuggust heldur ekki margir við því að Slóvenar færu alla leið á Eurobasket 2017 en slóvenska landsliðið vann EM í fyrsta sinn síðan landsliðið sleit sig frá Júgóslavíu.

Það mun því kannski sanna sig enn á ný að það er góður undirbúningur fyrir farsæla útsláttarkeppni á stórmótum að hafa mætt íslensku landsliði í riðlakeppni mótsins.

Spánverjar unnu EM í körfu 2015.Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×