Lífið

Sér eftir háloftaástarsögunni og biðst afsökunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rosey Blair fylgdist grannt með. Hún og kærasti hennar Houston Hardaway hafa nú verið harðlega gagnrýnd fyrir athæfið.
Rosey Blair fylgdist grannt með. Hún og kærasti hennar Houston Hardaway hafa nú verið harðlega gagnrýnd fyrir athæfið.

Leikkonan Rosey Blair, sem nýlega komst í heimsfréttirnar fyrir að lýsa „háloftaástarsögu“ í beinni, hefur nú beðist afsökunar á málinu. Tíst hennar um samskipti tveggja flugfarþega vöktu fyrst mikla lukku en viðbrögðin snerust fljótlega upp í andhverfu sína og voru Blair og kærasti hennar harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum.

Forsaga málsins er sú að Blair var á heimleið ásamt kærasta sínum, Houston Hardaway, með flugi í Bandaríkjunum. Þar varð ung kona við bón hennar um að skipta um sæti svo Blair gæti setið með kærastanum. Ungur maður settist við hlið konunnar og fylgdust Blair og Hardaway náið með samskiptum fólksins – sem vöktu heimsathygli.

Jákvæðni einkenndi viðbrögð netverja í fyrstu en fljótlega fóru að renna á þá tvær grímur. Þegar í ljós kom að unga konan, sem ekki hafði gefið leyfi fyrir því að nafn hennar yrði birt, hafði neyðst til að loka Instagram-reikningi sínum vegna áreitni fór að bera á gagnrýni í garð Blair og Hardway, sem einnig þóttu hafa nýtt sér skyndilega frægðina á ósmekklegan hátt.

Sjá einnig: Háloftaástarsaga í beinni orðin að deilum um persónuvernd og kynbundna áreitni

Því hefur einnig verið haldið fram að með því að birta myndir af fólkinu og brot úr samræðum þess hafi parið brotið á friðhelgi einkalífsins og opnað fyrir áreitni gegn konunni.

Blair virðist nú hafa séð að sér en hún birti afsökunarbeiðni á Twitter-reikningi sínum í vikunni.

„Ég vildi að ég gæti komið skömminni sem ég finn vegna gjörða minna til skila en mér finnst tilfinningar mínar ekki viðeigandi á þessum tímapunkti,“ skrifaði Blair.

Hún beindi svo orðum sínum til konunnar, Helen, og baðst afsökunar á því að hafa notfært sér „fallegt og töfrandi augnablik“ milli hennar og unga mannsins, Euan Holden, á samfélagsmiðlum. Afsökunarbeiðni Blair má sjá í heild hér að neðan.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.