Erlent

Næturstaður forsetahjónanna í London víggirtur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er kominn í opinbera heimsókn til Bretlands. Air Force One þota forsetans lenti á Stanstead-flugvelli fyrr í dag. Trump mun dvelja í sendiherrabústað bandaríska sendiherrans í London sem hefur verið víggirtur fyrir komu forsetans.

Trump og Melaniu, eiginkonu hans, var flogið með þyrlu til bústaðarins við komuna þar sem þau munu dvelja í nótt. Verktakar hafa undanfarna daga unnið hörðum höndum að því að víggirða bústaðinn og nágrenni. Þá er lögreglan í Bretlandi með mikinn viðbúnað vegna komu forsetans.

Forsetahjónin munu reyndar ekki dvelja lengi í London en á morgun er gert ráð fyrir að Trump fundi með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, auk þess sem að hann mun heilsa upp á Elísabetu Englandsdrottningu og sötra te með henni og öðrum við hirð hennar í Windsor-kastala.

Verktakar hafa unnið að því að víggirða sendiherrabústað bandaríska sendiherrans í London.Vísir/Getty
Búist er við miklum mótmælum í London vegna komu Trumps og gert er ráð fyrir því að risastórri eftirmynd af barnungum Trump verði flogið yfir London á meðan Trump dvelur á Bretlandi.

Trump virðist þó ekki hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðum mótmælum og tjáði hann sig um þau á blaðamannafundi í Brussel á morgun áður en hann yfirgaf leiðtogafund NATO-ríkjanna.

„Já, það verða kannski mótmæli en ég held að Bretar, Skotar og Írar, eins og þið vitið á ég fasteignir á Írlandi, ég á fasteignir víða, ég held að þessu fólki líki vel við mig og séu sammála mér í innflytjendamálum,“ sagði Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×