Innlent

Kristján handviss um að hvalurinn sé blendingur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kristján Loftsson er forstjóri Hvals.
Kristján Loftsson er forstjóri Hvals. Vísir/Getty
„Ég er algjörleg viss um það að þetta sé blendingshvalur,“ hefur BBC eftir Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals ehf. sem hefur verið miðpunktur fjölmiðlaumfjöllunar víða um heim eftir að dýraverndunarsamtök sökuðu Hval um að hafa veitt fágætan blending langreyðar og steypireyðar.

BBC og Telegraph í Bretlandi og CNN eru meðal fjölmiðla sem fjallað hafa um málið en sérfræðingur sem CNN ræddi við telur víst að hvalurinn sem veiddur var hafi verið steypireyður. Reynist það rétt gæti það haft afleiðingar í för með sér fyrir Hval ehf. þar sem tegundin hefur verið friðuð við Íslandsstrendur frá árinu 1960.

Stundin hefur fjallaðum málið síðustu daga þar sem meðal annars er rætt við Gísla Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðing hjá Hafrannsóknarstofnun sem segir að af myndum af dæma sé líklegast að um blending langreyðar og steipireyðar sé að ræða en DNA-próf mun leiða endanlega í ljós hvers konar hvalategund var veidd.

Þrátt fyrir að slíkur blendingur sé fágætur er hann ekki friðaður og segir Kristján í samtali við CNN að hvalveiðimennirnir þekki muninn á steypireyðum og langreyðum.

„Við höfum aldrei veitt steipireyði frá því að þeir voru friðaðir hér. Við sjáum þá í hafinu en þegar við komum að þeim eru þeir svo sérstakir að við látum þá vera,“ hefur CNN eftir Kristjáni.

Hefur hann svipaða sögu að segja við The Telegraph í Bretlandi þar sem hann segir að umræddur hvalur hafi hagað sér eins og langreyður enda sé auðvelt að þekkja muninn á hvalategundunum.

Segir hann að hvalveiðimennirnir hafi veitt hinn umrædda hval enda talið víst að um langreyði væri að ræða. Þegar þeir tóku hann að bátnum komu hins vegar einkenni í ljós, rákir á kviði hvalsins, sem ekki hafi sést í sjónum. Það stemmi við aðra blendingshvali sem Hvalur hafi veitt.

„Þetta er eins og langreyður, þetta hagar sér eins og langreyður,“ er haft eftir Kristjáni. „Þetta var veitt sem langreyður en þetta er líklega blendingshvalur, ég er nokkuð viss um það.“

UmfjöllunBBC,TelegraphogCNN.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×