Lífið

Rúllandi sítróna eignast milljónir aðdáenda á netinu

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Mike tók að sjálfsögðu sítrónuna góðu með sér heim og skolaði hana eftir ævintýrið.
Mike tók að sjálfsögðu sítrónuna góðu með sér heim og skolaði hana eftir ævintýrið. Vísir/Getty
Milljónir manna um allan heim hafa fylgst hugfangnir með myndbandi af rúllandi sítrónu frá því í gær.

Ljósmyndarinn Mike Sakasegawa var á leið heim til sín í San Diego þegar hann rakst á sítrónu sem rúllaði niður götuna á móti honum.

Töluverður halli er á svæðinu svo hún virtist ekkert vera að fara að hægja á sér. Mike greip því símann og myndaði ævintýri sítrónunnar í tæplega tvær mínútur.

Hann snerti aldrei sítrónuna, né reyndi hann að hafa áhrif fá för hennar. Sítrónan rúllaði bara áfram og hann fylgdi í humátt á eftir þar til hún staðnæmdist neðst í brekku.

Mike kann engar skýringar á því hvers vegna myndbandið hefur farið eins og eldur í sinu um internetið síðan hann setti það á Twitter í gær. Þegar þetta er skrifað höfðu meira en þrjár milljónir skoðað myndabandið og tugþúsundir deilt því.

Nú þegar er aðdáendahópur sítrónunnar að taka á sig mynd og margir virðast líta á hana sem einskonar innblástur eða samlíkingu fyrir lífið. „Ef þessi sítróna getur haldið áfram að rúlla í gegnum lífið get ég það líka“ - sagði einn notandi.

Það er helst að frétta af sítrónunni að henni heilsast vel og vegur tæplega 1,1 merkur.

Margir hafa hvatt Mike til að gera límonaði úr sítrónunni en hann hefur ekki gert upp við sig hvað hann muni gera við ávöxtinn. Hugsanlega verður henni gefið nafn og hefur verið stungið upp á nafninu Miles.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×