Golf

Ólafía á góða möguleika á að komast áfram eftir stöðugan fyrsta hring

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía Þórunn var mjög stöðug í dag
Ólafía Þórunn var mjög stöðug í dag víris/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir spilaði gríðarlega stöðugt golf á fyrsta hring Marathon Classic mótsins sem fram fer í Ohio. Ólafía er jöfn í 43. sæti á einu höggi undir pari.

Ólafía byrjaði virkilega vel og fékk fugl á þriðju holu eftir að hafa náð góðum pörum á fyrstu tveimur holunum. Höggin fóru ekki alveg eftir bókinni á næstu holum en hún náði alltaf að landa pari og var að spila virkilega stöðugt og gott golf.

Eftir 13 pör í röð var Ólafía komin á 17. holu í vænlegri stöðu, með langt pútt fyrir erni. Það fór aðeins of skarpt til vinstri. Erfiðlega gekk að koma kúlunni ofan í holuna og fyrsti og einni skollinn leit dagsins ljós.

Ólafía svaraði skollanum hins vegar glæsilega, með fugli á lokaholunni og lauk leik á einu höggi undir pari í 43.-57. sæti.

Ólafía var með þeim síðustu út á völlinn í kvöld og eru því nær allir kylfingar búnir með sinn fyrsta hring. Efstar eru Thidapa Suwannapur og Caroline Hedwall á sex höggum undir pari.

Miðað við stöðu kylfinga eftir þennan fyrsta hring væri niðurskurðarlínan líklega við parið svo Ólafía er í ágætum málum, nái hún að vera undir parinu á morgun þá ætti hún að sleppa í gegn án mikilla vandræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×