Skoðun

Fjallgöngur yfirsetukvenna

María Bjarnadóttir skrifar
„Margar sýslur eru svo strjálbygðar og erfiðar yfirsóknar, að hverri konu er ofætlun að hafa þar sýslumannsembætti á hendi.“ Jón Ólafsson þingmaður lýsti þessum áhyggjum á Alþingi árið 1911 þegar til umræðu var frumvarp um aðgang kvenna að námi, námsstyrkjum og opinberum embættum. Einhverjir tóku undir og aðrir voru ósammála.

Framsögumaðurinn Hannes Hafstein sagði konur vel geta klifið fjöll og firnindi til þess að bjarga mannslífum sem læknar, eins og þær hefðu gert sem yfirsetukonur þangað til. Það hefðu þær gert „svo vel, að karlmenn munu tæpast gera betur, og ef kona er svo hraust að burðum, að hún getur rækt svo erfitt starf, því mundi hún þá ekki geta þjónað öðrum embættum?“

Jón hafði einnig áhyggjur af afleiðingum frumvarpsins á réttaröryggi í landinu með kvenkyns lögreglustjóra. Til dæmis gætu þær ekki rannsakað morðmál vegna sængurlegu. „Að liggja á sæng er ekki nándar nærri eins hættulegt, eins og margir sjúkdómar, sem karlmenn fá engu síður en konur,“ svaraði Hannes. Á þessum tíma var sennilega ekki búið að taka saman alþjóðlega tölfræði um helstu dánarorsakir kvenna, en fyrir konur á barnsburðaraldri er barnsburður næstalgengasta orsökin.

Reyndar er aðeins 1% þessara andláta í ríkjum eins og Íslandi þar sem ljósmæður eru menntaðar og fæðingarþjónusta aðgengileg og hluti af heilbrigðiskerfinu. Ljósmæður bjarga lífum. Þær hafa gert það frá örófi alda, en við mismunandi aðbúnað. Nú er ríkið meira að segja farið að borga þeim fyrir. Það held ég að hvorki Hannes né Jón hafi séð fyrir á sínum tíma.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×