Innlent

Gómaður í stolnu buxunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sundlaugargestir í Vesturbæ vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið í gær.
Sundlaugargestir í Vesturbæ vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið í gær. Vísir/Daníel
Bíræfinn þjófur lét greipar sópa í sundlaug Vesturbæjar í gær. Maðurinn er sagður hafa gengið á milli fataskápa og hirt þaðan ýmsa muni, til að mynda buxur með belti og önnur verðmæti. Lögreglan hafði hendur í hári mannsins skömmu eftir að tilkynningin barst. Reyndist maðurinn þá vera búinn að klæða sig í umræddar buxur. Þar að auki fundust í fórum hans munirnir sem sundlaugargestir söknuðu. Maðurinn var fluttur rakleiðis í fangaklefa og segir lögreglan að reynt verði að koma mununum til réttmætra eigenda sinna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg önnur horn að líta í nótt. Til að mynda hrasaði draugfullur maður í strætisvagni í Kópavogi með þeim afleiðingum að hann hlaut vænan skurð á höfuðið. Var því fátt annað í stöðunni en að flytja manninn, í sjúkrabifreið, á slysadeild þar sem hann fékk aðhlynningu.

Þar að auki voru fjórir ungir veggjakrotarar stöðvaðir í undirgöngum við Fjallkonuveg á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þrír náðu að hlaupa á brott en sá fjórði komst ekki undan og verður hann kærður fyrir eignaspjöll. Þar að auki var veggjakrotsbúnaðurinn tekinn af honum.

Um svipað leyti var vímaður maður handtekinn í Tryggvagötu eftir að hann hafði gengið þar berserksgang. Er hann sagður ítrekað hafa verið til vandræða; skemmt hluti sem á vegi hans urðu og ekki fylgt fyrirmælum lögreglu. Því var hann fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu þar sem hann hefur fengið að sofa úr sér vímuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×