Enski boltinn

„H-ið“ á skilið að spila með betra liði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harry Maguire fagnar marki sínu í leiknum á móti Svíþjóð á HM.
Harry Maguire fagnar marki sínu í leiknum á móti Svíþjóð á HM. Vísir/Getty
Riayd Mahrez, nýjasti leikmaður Englandsmeistara Manchester City, telur að Harry Maguire, miðvörður Leicester og enska landsliðsins, eigi skilið að spila með betra liði.

Maguire hefur átt frábært ár eftir að hann var keyptur frá Hull til Leicester fyrir 17 milljónir punda síðasta sumar. Hann var einn af betri miðvörðum ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og hefur svo slegið í gegn á HM í Rússlandi.

Þessi 25 ára gamli varnarmaður á vafalítið eftir að fá að spreyta sig með stóru liðunum áður en langt um líður en það fær Mahrez einmitt að gera næsta vetur eftir að vera keyptur á 60 milljónir punda til Manchester City.

„Ég hef alltaf verið á því að H-ið (Harry Maguire) er mjög góður leikmaður. Hann sýndi það frá fyrsta degi eftir að hann kom til Leicester,“ sagði Mahrez á sínum fyrsta blaðamannafundi sem leikmaður City.

„Það kemur mér ekkert á óvart að hann er að spila svona vel á HM. Að sjálfsögðu á hann skilið að spila með betra liði en Leicester er en það er samt flott félag. Hann mun gera upp hug sinn síðar og þá sjáum við til,“ sagði Riyad Mahrez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×