Íslenski boltinn

Skrefi nær annarri myndarlegri útborgun eftir sigrana frábæru

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stjarnan og FH eru sama og komin í aðra umferðina.
Stjarnan og FH eru sama og komin í aðra umferðina. vísir/bára
FH og Stjarnan eru komin með annan fótinn í aðra umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir glæsilega sigra í gærkvöldi. Stjarnan bar sigurorð af Nömme Kalju frá Eistlandi á Samsung-vellinum í Garðabæ, 3-0, en eistneska liðið er þrautreynt Evrópulið og hefur komist í gegnum fyrstu umferðina sjö ár í röð.

FH gerði enn betur og vann finnska liðið Lahti á útivelli, 3-0, en mikið þarf að gerast svo nágrannaliðin fari ekki áfram í aðra umferð Evrópudeildarinar. Þar mætir FH liði Haopel Haifa frá Ísrael en Stjarnan líklega FCK frá Kaupmannahöfn.

Eins og alltaf eru myndarlegar peningaupphæðir í boði fyrir liðin í Evrópu enda ekki að ástæðulausu að nær öll liðin deildarinnar setja stefnuna á að enda í Evrópusæti þegar stigin eru talin upp úr pokanum í lok móts.

Stjarnan og FH fengu bæði 240 þúsund evrur eða 30 milljónir króna fyrir að taka þátt í fyrstu umferðinni en komist liðin áfram fá þau bæði 260 þúsund evrur eða 32,7 milljónir króna. Ríflega 60 milljónir í kassann fyrir tvö Evrópueinvígi.

Eyjamenn fengu sömuleiðis 240 þúsund evrur fyrir einvígi sitt á móti norska liðinu Sarpsborg en það verður að teljast afar ólíklegt að ÍBV fari áfram eftir 4-0 skellinn á heimavelli í gærkvöldi.

Aðeins meira er í boði fyrir Valsmenn í Meistaradeildinni en fyrir utan meistaragreiðsluna frá UEFA fékk liðið 280 þúsund evrur eða 35 milljónir króna fyrir að taka þátt í fyrstu umferð forkeppninnar þar sem að liðið er í miðri rimmu gegn Noregsmeisturum Rosenborgar.

Geri Valsmenn hið ótrúlega og leggi norska liðið að velli fær það 380 þúsund evrur eða 47 milljónir króna fyrir að taka þátt í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar en annars fær það 32,7 eins og Stjarnan og FH því það „fellur“ niður í aðra umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×