Enski boltinn

Nýr stjóri Arsenal vill hafa fimm fyrirliða hjá liðinu í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unai Emery talar við leikmenn Arsenal á æfingu.
Unai Emery talar við leikmenn Arsenal á æfingu. Vísir/Getty
Unai Emery, nýr knattspyrnustjóri Arsenal, ætlar að fara eigin leiðir á komandi tímabili þegar kemur að því að velja hver ber fyrirliðaband liðsins.

Spánverjinn Unai Emery tók við af Frakkanum Arsene Wenger í sumar en Wenger hafði þá setið í stjórastólnum frá árinu 1996.

„Mín hugmynd snýst um að læra vel inn á alla leikmenn og þekkja persónuleika þeirra líka mjög vel,“ sagði Unai Emery við BBC.

Unai Emery ætlar því að vanda sig við leitina af næsta fyrirliða liðsins og þar koma allir leikmenn til greina.

Franski miðvörðurinn Laurent Koscielny verður samt áfram aðalfyrirliði Arsenal liðsins til að byrja með en hann verður ekki sá eini. Einn af nýju mönnum Arsenal er svissneski landsliðsfyrirliðinn Stephan Lichtsteiner.

„Ég ætla til að byrja með að hafa fimm fyrirliða í mínu liði. Ég veit þó ekki nöfn þeirra ennþá,“ sagði Emery.

„Við erum að skoða og meta leikmen til að ákveða það hver þeirra er með besta persónuleikann í búningsklefanum,“ sagði Emery.

Arsenal hefur fengið fullt af nýjum leikmönnum í sumar auk Lichtsteiner. Þetta eru þýski markvörðurinn Bernd Leno, gríski varnarmaðurinn Sokratis Papastathopoulos, úrúgvæski miðjumaðurinn Lucas Torreira og franska ungstirnið Matteo Guendouzi.

„Kannski fáum við einn leikmann til viðbótar en það eru góðar líkur á því að hann hjálpi liðinu. Félagið hefur hinsvegar staðið sig mjög vel í að fá nýja leikmenn í sumar og ég er ánægður. Við náðum í leikmenn sem við þurftum á að halda,“ sagði Emery.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×