Körfubolti

Curry: Heimskulegasta sem ég hef heyrt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Curry er langt frá því að vera saddur
Curry er langt frá því að vera saddur vísir/getty

Það er engum blöðum um það að fletta að Golden State Warriors er langbesta lið NBA deildarinnar enda hefur liðið unnið deildina þrisvar á síðustu fjórum árum.

Ekki sér fyrir endann á yfirburðum Warriors og vilja margir körfuboltaáhugamenn meina að þeir séu að skemma deildina.

Einn allra besti miðherji deildarinnar, DeMarcus Cousins samdi við Warriors á dögunum sem þýðir að liðið mun geta stillt upp byrjunarliði skipað Stephen Curry, Klay Thompson, Kevin Durant, Draymond Green auk Cousins.

Vilja margir meina að þarna fari sterkasta byrjunarlið í sögu NBA, í það minnsta á pappírunum en það á eftir að koma í ljós hvernig Cousins fellur inn í meistaraliðið. Hann er langt því frá að vera mesti liðsmaðurinn auk þess sem hann er að jafna sig á alvarlegum meiðslum.

Skærasta stjarna Warriors, Stephen Curry, hefur tjáð sig um umræðuna sem er í gangi um Warriors og virðist hafa gaman að henni þó hann telji hana út úr korti.

„Það er það heimskulegasta sem ég hef heyrt að við séum að skemma NBA. Ég elska þessa umræðu,“ sagði Curry.

„Við erum alltaf að leita að leiðum til að bæta okkur. Ef við myndum bara halla okkur aftur og slaka á eftir að hafa unnið titil myndum við fljótt staðna,“ sagði Curry einnig.

NBA

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.