Íslenski boltinn

Fyrsti heimasigur Þróttar kom gegn Skagamönnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Viktor skoraði þrjú í kvöld.
Viktor skoraði þrjú í kvöld. vísir/stefán
Þróttur vann sterkan sigur á Skagamönnum í 11. umferð Inkasso deildar karla í kvöld. Sigurinn kom í veg fyrir að ÍA endurheimti toppsæti deildarinnar af HK.

Fyrsta mark leiksins kom á 17. mínútu. Viktor Jónsson slapp einn á móti Árna Snæ Ólafsson í marki ÍA og skoraði fyrir heimamenn. Aðeins fimm mínútum seinna var Viktor aftur á ferðinni. Í þetta skipti lagði hann upp mark fyrir Daða Bergsson.

Gestirnir frá Akranesi náðu að minnka muninn fyrir leikhlé með marki Stefáns Teits Þórðarsonar og var staðan í hálfleik 2-1.

Snemma í seinni hálfleik voru Daði og Viktor aftur á ferðinni fyrir Þrótt. Daði komst einn á móti Árna en sá Viktor í hlaupinu sem kláraði í markið. Viktor fullkomnaði svo þrennuna á 88. mínútu og aftur var það Daði Bergsson sem átti stoðsendinguna og kláruðu þeir félagar leikinn fyrir Þrótt. Lokatölur í Laugardalnum 4-1.

Sigurinn kemur Þrótti upp fyrir Fram í fimmta sæti deildarinnar með 16 stig. Þetta er jafnframt fyrsti heimasigur Þróttara í deildinni í sumar. ÍA er nú tveimur stigum á eftir HK á toppi deildarinnar, í öðru sætinu fyrir ofan Víking Ólafsvík á markatölu.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×