Innlent

Hafa verið sendar á Akranes vegna álags á Landspítala

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Dæmi eru um að senda hafi þurft konur frá höfuðborgarsvæðinu í keisaraskurð á Akranesi vegna álags á Landspítalanum. Uppsögnum ljósmæðra fer fjölgandi en ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilunni.

Að sögn Lindu Kristmundsdóttur, framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs Landspítala, hafa yfir 30 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítananum. Tólf þeirra tóku gildi um mánaðamótin og að óbreyttu hefst yfirvinnubann á miðnætti á miðvikudaginn. Neyðaráætlun hefur verið í gangi frá mánaðamótum en á mánudaginn munu stjórnendur spítalans funda um það hvernig bregðast skuli við og útfæra neyðaráætlun þegar yfirvinnubannið skellur á.

Það er víðar en á Landspítalanum sem ljósmæður hafa sagt upp. Á Selfossi hefur ein af átta starfandi ljósmæðrum sagt starfi sínu lausu. Þá hafa fjórar af átta skilað uppsagnarbréfi á Suðurnesjum en þar er þjónusta skert í júlí vegna undirmönnunar. Á Akranesi hafa tvær ljósmæður af fjórtán sagt upp en þangað hefur þurft að senda konur frá höfuðborgarsvæðinu vegna álags á Landspítalanum.

„Þetta eru konur sem þurfa að fara í fyrirfram ákveðinn keisara útaf einhverju,“ segir Hrafnhildur Ólafsdóttir, ljósmóðir á Akranesi. „Ég veit ekki hvað eru komnir margir keisarar síðan 1. júlí en þetta eru nokkrir sem við höfum verið að taka. Þess utan hafi orðið vart við aukinn áhuga á deildinni á Akranesi. „Það er mikið hringt og spurt og fá upplýsingar og hvort það megi koma og megi koma og skoða,“ segir Hrafnhildur.

Þá hafa ljósmæður boðað félagsfund á mánudagskvöldið þar sem farið verður yfir hvað má og hvað ekki þegar yfirvinnubannið tekur gildi. „Rauninni bara að taka stöðuna og undirbúa í rauninni konur fyrir yfirvinnuverkfallið sem hefst á miðvikudaginn og svona fara yfir hvað má og hvað ekki og svona,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra.

Óheimilt verður að fara framhjá yfirvinnubanninu, án sérstakrar undanþágu. „Það þarf að sækja um undanþágu fyrir hvert tilvik fyrir sig, til sérstakrar undanþágunefndar,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×